Þykir rétt að framlengja undanþágu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði undanþágu ekki hafa borist ríkisstjórn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði undanþágu ekki hafa borist ríkisstjórn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tillaga um framlengingu undanþágu á tollfrjálsum innflutningi landbúnaðarvara frá Úkraínu hefur ekki ratað á borð ríkisstjórnarinnar að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, spurði forsætisráðherra um stöðu málsins í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær. Frestur til að framlengja undanþáguna rennur út í dag en hún tók gildi sumarið 2022.

Það sé hægur vandi að framlengja þetta ákvæði þar sem það kallar á lagasetningu, segir Katrín og bætir við að ákvörðunin hafi á sínum tíma verið utanríkispólitísk fremur en ákvörðun sem laut að matvælastefnu.

Þykir rétt að framlengja undanþáguna

Katrínu þykir rétt að framlengja þessa undanþágu en hyggst kanna stöðu málsins hjá matvælaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. 

Undanþágan hafi töluverð áhrif á innlendan markað en samkvæmt Katrínu hafa verðmæti innfluttra vara á gildistíma ákvæðisins numið 94 milljónum króna en 24 milljónum króna árið 2021. Stafar það helst af innflutningi alifuglakjöts. 

Vegna áhrifa á innlendan markað sé mikilvægt að fylgjast með umfangi undanþágunnar og hvaða áhrif hún hefur á samkeppnisstöðu innlendra vara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert