„Við höfum hlutverki að gegna“

„Ég er viss um að margir myndu vilja verja þessum …
„Ég er viss um að margir myndu vilja verja þessum peningum í eitthvað annað uppbyggilegra, en til þess að geta sinnt öðru uppbyggilegra þurfa þessir hlutir að vera í lagi,“ segir ráðherra um framlög NATO-ríkja til varnarmála. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þetta er síðasti fundur fyrir leiðtogafundinn í Vilníus í sumar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is en hún er nú stödd í Ósló í Noregi þar sem hún sækir fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins NATO sem hófst í dag.

Í gær hitti ráðherra tæplega fjörutíu sendiherra gagnvart Íslandi með aðsetur í Ósló í bústað Högna Kristjánssonar, sendiherra Íslands þar í borginni, og Ásgerðar Magnúsdóttur sendiherrafrúar á Bygdøy og flutti samkomunni þar fyrirlestur um ýmis málefni sem ofarlega eru á íslenskum baugi um þessar mundir.

„Ég ræddi þar ýmsar áherslur í íslenskum utanríkismálum, forgangsatriði, fyrir hvað við stöndum, í gegnum hvaða alþjóðastofnanir við helst vinnum og hver okkar höfuðgildi eru, grundvallarmannréttindi, einstaklingsfrelsi, lýðræði og réttarríki. Þau eru ekki bara vegna þess að þau hljóma vel heldur vegna þess að það er klárt samasemmerki á milli samfélaga sem passa upp á þessi gildi og samfélaga sem geta aukið lífsgæði fólks og gert því kleift að finna hamingjuna hvernig sem það kýs að gera það,“ segir Þórdís.

Tækifæri sem ekki gefst oft

Enn fremur hafi hún í máli sínu beint sjónum að því hvar Ísland stæði gagnvart Úkraínu og af hverju sú afstaða væri sprottin. Sú miðlun væri mikilvæg þar sem sumir sendiherranna væru frá ríkjum sem Ísland hefði minni samskipti við, en gestir í íslenska sendiherrabústaðnum í gær voru meðal annars sendiherrar Pakistans, Marokkó og Norður-Makedóníu svo eitthvað sé nefnt og átti blaðamaður raunar ágætt samtal við Driton Q. Kuqi, sendiherra síðastnefnda ríkisins, um matarhefðir á hans heimaslóðum auk náttúru landsins og veðurfars.

Þórdís ræðir við Nabilu Freidji, sendiherra Marokkó gagnvart Íslandi, í …
Þórdís ræðir við Nabilu Freidji, sendiherra Marokkó gagnvart Íslandi, í garði sendiherrabústaðarins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Sendiherrarnir gátu svo notað tækifærið og spurt mig um hvað sem. Ég notaði tækifærið bara og talaði frá hjartanu um fyrir hvað Ísland stendur og af hverju,“ segir Þórdís.

„Ég ákvað að koma degi fyrr til þess að nýta ferðina og hef átt fundi með utanríkisráðherra Noregs, þróunarsamvinnuráðherra, varnarmálaráðherra og þeim ráðherra sem fer með viðskiptamál og utanríkisviðskipti auk þess sem ég hitti norsk-íslenska viðskiptaráðið og svo er það auðvitað þetta tækifæri hérna að geta talað við 38 sendiherra gagnvart Íslandi. Það er tækifæri sem gefst ekki sérstaklega oft,“ segir Þórdís frá.

Þungamiðjan er Úkraína

Ráðherra segir það knýjandi að vera í góðu sambandi við fólk sem taki ákvarðanir á hverjum þeim vettvangi er áhrif hefur á Ísland, „og ég hef ekki komið hingað til Óslóar í svona erindum áður“, segir Þórdís og vísar þar til samkomunnar með sendiherrunum.

Ráðherra fór þess á leit að viðtalið færi fram í …
Ráðherra fór þess á leit að viðtalið færi fram í garði sendiherrabústaðarins enda sólin sjaldséð fyrirbæri á Íslandi. Bústaðurinn er glæsileg bygging á Bygdøy í Ósló sem eitt sinn hýsti forstjóra hinnar fornfrægu norsku sælgætisgerðar Freiu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Aðspurð kveður Þórdís þungamiðju NATO-ráðherrafundarins vera stríðið í Úkraínu og málefni ríkisins stríðshrjáða. „Bæði verður þar rædd samstaða um áframhaldandi stuðning gagnvart Úkraínu til lengri tíma og sömuleiðis munum við ræða vilja Úkraínu til að gerast í framtíðinni aðili að NATO.

Öllum er ljóst að Úkraína verður ekki aðili að NATO á meðan þar er stríð, en þeirra vilji er alveg skýr og það verður til umræðu en einnig erum við líka að bíða eftir því að geta boðið Svíþjóð formlega velkomna sem aðildarríki. Vonandi koma einhver skilaboð um það, tvö lönd eiga enn eftir að klára það mál, Ungverjaland og Tyrkland,“ segir Þórdís af fundi ráðherranna.

Staða Norðurlanda og NATO-framlög

Við beinum talinu að fréttum í gær um að danska ríkisstjórnin hefði ákveðið að þrefalda framlög sín til varnarmála. Hversu líst ráðherra á stöðu Norðurlanda er að öryggis- og varnarmálum kemur?

Þórdís flytur sendiherrum 38 ríkja erindi sitt á meðan Högni …
Þórdís flytur sendiherrum 38 ríkja erindi sitt á meðan Högni Kristjánsson sendiherra hlýðir andaktugur á. Sendiherrum í sal gafst svo ráðrúm til að spyrja ráðherra út í ýmis málefni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við sjáum að öll lönd eru að auka verulega við varnartengd útgjöld og í NATO erum við með tveggja prósenta lágmark, að tvö prósent af landsframleiðslu hvers ríkis skuli fara til varnarmála. Það eru ekki allt of mörg ríki sem hafa náð því á meðan sum ríki eru töluvert fyrir ofan, til dæmis Eystrasaltsríkin. Áttatíu prósent af fjárframlögum í NATO koma frá ríkjum utan Evrópusambandsins þótt þau séu mörg ríkin innan ESB sem eru líka í NATO,“ segir Þórdís.

Ljóst sé því að hér sé verk að vinna, Danmörk eigi til dæmis enn langt í að ná tveimur prósentunum umræddu og segir Þórdís ákvörðun dönsku stjórnarinnar nú lið í að ná þangað.

Hluti sendiherranna hlýðir á mál Þórdísar.
Hluti sendiherranna hlýðir á mál Þórdísar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Núna finna ríkin áþreifanlega fyrir því að þessa er þörf og við þurfum að bæta getu okkar bæði til þess að viðhalda fælingarmætti og möguleikum á að bregðast við. Flest löndin hafa verið að auka allverulega við. NATO var ekki búið til fyrir skriðdrekana, NATO sem varnarbandalag var búið til með það fyrir augum að passa upp á sjálft sig og þau gildi sem við stöndum fyrir. Ég er viss um að margir myndu vilja verja þessum peningum í eitthvað annað uppbyggilegra, en til þess að geta sinnt öðru uppbyggilegra þurfa þessir hlutir að vera í lagi,“ segir ráðherra.

Vissulega þörf á frekari getu

Telur þú að Ísland ætti að koma sér upp her eins og rætt var hér á dögunum?

Ráðherra hugsar sig stuttlega um. „Mér finnst mjög mikilvægt að Ísland taki hlutverk sitt alvarlega, hlutverk sitt í NATO, það sé verður aðili að Atlantshafsbandalaginu. Mér finnst mikilvægt að Íslendingar og Ísland átti sig á stöðu sinni sem þjóð meðal þjóða. Að við höfum hlutverki að gegna, við höfum skyldum að gegna og því fylgja ekki bara réttindi að vera frjáls og fullvalda. Eins fylgja því ekki bara réttindi að vera í NATO, því fylgja líka skyldur,“ segir Þórdís alvarleg í bragði.

Ráðherra ásamt sendiherrahjónunum Högna Kristjánssyni og Ásgerði Magnúsdóttur sem voru …
Ráðherra ásamt sendiherrahjónunum Högna Kristjánssyni og Ásgerði Magnúsdóttur sem voru gestgjafar í gær í garðveislu á Bygdøy. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Vissulega segir hún Íslendinga þurfa að byggja upp frekari getu og enn fremur að Íslendingar eigi að fjárfesta í eigin getu. „Hvort sem það eru netvarnir, sem eru okkar heimaverkefni og ekki eitthvað sem þú framselur til Atlantshafsbandalagsins, eða bara frekari geta vegna breyttra aðstæðna. Á þann lista myndi ég ekki setja það sem forgangsverkefni að stofna her. Hann væri alltaf agnarsmár og ég held einhvern veginn að okkar fjármunum, mannlegri þekkingu og uppbyggingu þekkingar og getu sé betur þjónað með öðrum hætti. Ég er þeirrar skoðunar,“ segir ráðherra.

Hvernig heldurðu að þessu ástandi í Úkraínu muni lykta?

„Það er auðvitað engin leið að vita hvernig þessu lýkur eða hvenær,“ svarar Þórdís, „en það sem er í mínum huga algjörlega skýrt er að Pútín stoppar ekki fyrr en hann er stöðvaður. Það er ekki nóg að segja að Úkraína þurfi að vinna og Rússland þurfi að tapa þessu stríði og það er ekki rétt sem maður heyrir mjög oft að öll stríð endi við samningaborðið. Okkar hlutverk er raunverulega að gera það sem þarf til þess að frjáls þjóð geti varið sig, staðið vörð um sín landamæri, sótt til baka það sem af henni er tekið og svo þarf að sækja Rússland til ábyrgðar fyrir þá glæpi sem hafa verið framdir,“ segir utanríkisráðherra.

„Það er auðvitað engin leið að vita hvernig þessu lýkur …
„Það er auðvitað engin leið að vita hvernig þessu lýkur eða hvenær,“ segir Þórdís Kolbrún um hörmungarnar í Úkraínu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Styðja lönd í fullum rétti

Vissulega segir hún ávallt umræðu um að ástandið geti stigmagnast, hvort sem innan eða utan Úkraínu sé. Nú standi yfir umræða og undirskriftum sé safnað um kjarnavopn í Hvíta-Rússlandi. „Það er land sem á landamæri að NATO-ríkjum. En ég er ekki beint í stöðu til að velta því upp – enda vafasamt hvort utanríkisráðherra eigi að gera það – hvernig þetta endar. En ég veit bara að það sem við þurfum að gera er að styðja lönd, sem eru í fullum rétti til að verja sig sjálf, til að gera það og það er í þágu okkar allra að þetta verði stöðvað,“ eru lokaorð ráðherra um lyktir Úkraínumála.

Hvers konar spurningar færðu yfirleitt frá fulltrúum annarra ríkja á alþjóðlegum samkomum, á hverju leikur þeim forvitni?

„Það er alls konar,“ svarar Þórdís að bragði, „almennt er mjög mikið um Úkraínu, ég nefni þau mál alltaf, og orkumál mjög oft, það kemur sér ágætlega að hafa verið orkumálaráðherra á sínum tíma. En ég nýti líka tækifærið til að koma því á framfæri hvers konar samfélag íslenskt samfélag er og hverjir okkar helstu máttarstólpar í atvinnulífinu eru, hvort sem það er orka, iðnaður, sjávarútvegur, ferðaþjónusta eða nýsköpunargeirinn sem ég reyni að tala mikið um vegna þess að hann er vaxandi og það er mikilvægt að fólk átti sig á hvers konar gróska er þar í íslensku samfélagi,“ segir hún enn fremur.

Í pólitík veit enginn sína framtíð

Þegar hér er komið sögu í viðtalinu kemur Kari Jónsdóttir, sérfræðingur sendiráðsins á vettvangi stjórnmála- og menningarlegra málefna, hlaupandi út á grasflöt, þar sem blaðamaður og ráðherra hafa setið í makindum við skraf sitt, og kveðst verða að trufla samkomuna, móttakan sé að hefjast og fullt hús sendiherra og annarra gesta bíði í ofvæni eftir heiðursgestinum.

Við samþykkjum möglunarlaust og því lokaorð. „Það síðasta sem ég ætlaði að nefna er að mikið er spurt um jafnréttismál. Fólk spyr hvers vegna jafnréttismál séu eins og þau eru heima, af hverju erum við skást í heimi, af hverju erum við með áberandi leiðtoga og konur á vinnumarkaði og svona margar sterkar konur?“ segir Þórdís af forvitni leiðtoga annarra þjóða af landi elds og ísa.

„Draumur minn er raunverulega að fá að mæta í vinnuna …
„Draumur minn er raunverulega að fá að mæta í vinnuna á hverjum degi og finnast ég vera að gera gagn, fá að vinna að því að gera Ísland betra og sterkara og gera það sem skiptir máli,“ segir Þórdís Kolbrún við mbl.is. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Og þá algjörlega að lokum, hvað með þína framtíð í stjórnmálum, hver er draumurinn?

„Draumur minn er raunverulega að fá að mæta í vinnuna á hverjum degi og finnast ég vera að gera gagn, fá að vinna að því að gera Ísland betra og sterkara og gera það sem skiptir máli. Og ég hef verið ótrúlega lánsöm hingað til. Í pólitík veit enginn sína framtíð. En ég er tilbúin að fara með þá ábyrgð sem fólk treystir mér til að fara með,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að lokum í samtali við mbl.is í blómguðum garði sendiherrabústaðarins á Bygdøy í Ósló.

mbl.is