„Allt og ekkert“ verið gert tortryggilegt

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs Ólafssonar, við aðalmeðferð saltdreifaramálsins …
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs Ólafssonar, við aðalmeðferð saltdreifaramálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. mbl.is

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs Ólafssonar, gagnrýnir hugarfar lögreglu til rannsóknar saltdreifaramálsins og segir lögreglu hafa ítrekað reynt að gera „allt og ekkert“ tortryggilegt hvað varðar Halldór Margeir í því skyni að geta gengið á mannréttindi hans með rannsóknaraðgerðum og þvingunarráðstöfunum.

Í málflutningsræðu sinni fyrir Landsrétti í dag vísaði Vilhjálmur meðal annars til þess að tengsl umbjóðanda síns við Danmörku hefðu verið gerð tortryggileg en að lögreglu hefði verið ljóst að hann ætti dóttur og barnabörn í Danmörku.

Halldór Margeir var dæmdur í tólf ára fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa staðið að inn­flutn­ingi á salt­dreifara hingað til lands með Nor­rænu frá Hollandi, en í hon­um voru fald­ir 53 lítr­ar af am­feta­mín­vökva.

Taldi þátttöku Halldórs Margeirs ósannaða

Þegar litið væri yfir rannsókn málsins taldi Vilhjálmur ljóst að hugur lögreglu hefði ekki staðið til þess að upplýsa málið og leiða sannleikann í ljós. Rannsóknin hefði einungis miðað við það sem horfði til sektar en ekki til sýknu.

Hann taldi ósannað að Halldór Margeir hefði átt þátt í innflutningi á saltdreifaranum, auk móttöku hans og vörslu í Hjallanesi á Hellu. Þá hefði hann hvorki fjarlægt vökvann úr saltdreifaranum né framleitt fíkniefnin.

Þá gaf Vilhjálmur lítið fyrir framburð Guðjóns Sigurðssonar, bónda í Hjallanesi, um þátt Halldórs Margeirs í málinu og sagði það augljóst að Guðjón hefði hag af því að varpa sök á umbjóðanda sinn.

Krafist var frávísunar málsins eða sýknu, en til þrautavara var þess krafist að Halldór Margeir yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Benti Vilhjálmur á að 12 ára fangelsisdómur í héraði hefði verið allt of þungur. Bæri einnig að líta til þess að sakarferill Halldórs Margeirs væri enginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert