Eiga inni 12 milljónir króna frá Yutong vegna tafabóta

Seinkun varð á afhendingu rafmagnsvagna til Strætó og beitti fyrirtækið …
Seinkun varð á afhendingu rafmagnsvagna til Strætó og beitti fyrirtækið Yutong, framleiðanda vagnanna, dagsektum uns vagnarnir bárust. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Það fer að koma að því að síðasta peningagreiðslan verði innt af hendi. Ég er að fá heimild stjórnar til að athuga hvort við getum nýtt þá peninga til að kaupa þann vagn sem við erum búin að vera með á leigu,“ segir Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó við Morgunblaðið.

Síðasta peningagreiðslan frá kínverska fyrirtækinu Yutong til Strætó á eftir að berast en hún er um 12 milljónir króna. Seinkun varð á afhendingu rafmagnsvagna til Strætó og beitti fyrirtækið Yutong, framleiðanda vagnanna, dagsektum uns vagnarnir bárust.

Þau mál eru að flestu leyti frágengin en nú er verið að leggja lokahönd á samningamál vegna tafabótanna.

Á síðasta stjórnarfundi Strætó er velt upp þremur möguleikum til að leysa vagnavanda Strætó, en af þeim 66 strætisvögnum sem Strætó notar eru 45 vagnar átta ára eða eldri. Með aldrinum eykst viðhaldskostnaðurinn. Í glærukynningu Strætó á fundinum segir: „Það er nauðsynlegt að taka ákvörðun um næstu skref. Útvista strax meira? Fjármagn til fjárfestingar? Hagræða í leiðakerfi og þá þeim hluta sem Strætó ekur?“

„Við erum að skoða þessa þrjá möguleika,“ segir Jóhannes. „Það er verið að skoða, eins og hefur komið fram, hvort Strætó eigi yfirhöfuð að vera með sína eigin akstursdeild. Það er engin niðurstaða komin í það.“

Aðspurður hvað tefur málið segir Jóhannes: „Það vantar ákvörðun frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu en hún er ekki auðveld. Það getur tekið langan tíma að komast að niðurstöðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: