Kærum íbúa vísað frá

Nýr veg­ur verður lagður á brú yfir Breiðholts­braut­ina og inn …
Nýr veg­ur verður lagður á brú yfir Breiðholts­braut­ina og inn aft­ur á ljós­a­stýrðum gatna­mót­um. Teikning/​Vega­gerðin

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur vísað frá tveimur kærum sem íbúar við Vatnsendahvarf lögðu fram, vegna samþykktar Kópavogsbæjar á umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar.

Samtökin Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins ásamt tugum íbúa, lögðu fram kærurnar. 

Kærendur sögðu að lögbundið samráð við íbúa hefði ekki átt sér stað, fyrirspurnum þeirra ekki verið nægilega vel svarað og að umhverfismatið sem framkvæmdin væri byggð á væri 20 ára gamalt.

Hafa ekki lögvarinna hagsmuna að gæta

Í niðurstöðu úrskurðarins í máli nr. 79/2022 segir að einungis þeir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda stjórnvaldsákvörðunum geti kært ákvarðanir til úrskurðarnefndar. 

„Kærendurnir Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa ekki slíkra hagsmuna að gæta og verður kröfum þeirra vísað frá nefndinni.“

Í hinni kærunni í máli 140/2022 segir að hús kærenda séu mörg hver fjarri veginum áætlaða og að eitt húsið sé til dæmis í kílómetra fjarlægð.

Vinir Kópavogs stjórnmálasamtök

Úrskurðarnefnd segir ennfremur að samkvæmt lagalegri skilgreiningu séu samtökin Vinir Kópavogs stjórnmálasamtök og geti þar af leiðandi ekki kært mál til úrskurðarnefndar.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um starfsemi stjórnmálasamtaka nr. 162/2006, eru stjórnmálasamtök flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Er félagið Vinir Kópavogs samkvæmt þessu fremur stjórnmálasamtök. Slík samtök njóta ekki heimildar til að kæra mál til úrskurðarnefndarinnar, sem bundin er við umhverfisverndarsamtök og önnur sambærileg hagsmunasamtök."

Öðrum kærendum játuð kæruaðild

„Vegna greindra staðhátta verður að telja að hið kærða framkvæmdaleyfi varði ekki einstaklingsbundna hagsmuni framangreindra kærenda umfram aðra. Eiga þeir því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta með tilliti til grenndaráhrifa. Verður kröfum framangreindra kærenda því vísað frá úrskurðarnefndinni. Öðrum kærendum er á hinn bóginn játuð kæruaðild vegna mögulegra grenndaráhrifa heimilaðra framkvæmda, þar sem fasteignir þeirra eru staðsettar rétt utan framkvæmdasvæðisins.“

Úrskurðarorðin hljóða þannig: „Kröfum kærenda að Jóruseli 6, 21 og 23, Klyfjaseli 4, 6, og 22, Jakaseli 9 og Dynsölum 14, auk samtakanna Vina Kópavogs, er vísað frá úrskurðarnefndinni.“

Um er að ræða um 1,9 km kafla á Arnarnesvegi, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Þá er einnig gert ráð fyrir tvennum undirgöngum og byggingu tveggja brúa fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

mbl.is