Reiðufé úr umferð til að uppræta peningaþvætti

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. Eggert Jóhannesson

Rekjanleiki peningaþvættisbrota myndi einfaldast ef minna reiðufé væri í umferð að sögn ríkislögreglustjóra. Erfiðara er að fylgjast með peningaþvættisbrotum sem færð hafa verið að hluta inn í löglega starfsemi. 

Fjallað var um kosti og galla þess að halda reiðufé í umferð á ráðstefnu um notkun reiðufjár í verslun og þjónustu sem fram fór í morgun á vegum Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka fjármálafyrirtækja.

Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, fór með opnunarávarp fundarins þar sem hann sagði kostnað af notkun reiðufjár margfaldan á við notkun korta, því hljóti að vera kappsmál að draga úr notkun reiðufjár. 

Önnur þau sjónarmið sem fjallað var um voru áhrif þess að draga úr notkun reiðufé á peningaþvætti. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sem sat fyrir svörum í pallborðsumræðum ræddi við mbl.is eftir fundinn.

Horfa fyrst og fremst til rekjanleika

Aðspurð hvaða áhrif það hefði á peningaþvætti að taka reiðufé úr umferð sagði hún skipulagða brotastarfsemi snúast um hagnað. „Þegar þú ert kominn með reiðufé þá er rekjanleikinn erfiðari að því leiti að það þarf í rauninni að tengja reiðuféð við frumbrotið. Sem þýðir það að ef við erum með minna reiðufé, þá að sjálfsögðu er auðveldara að elta þessar rafrænu greiðslur eða slóðir.“ Hagsmunir lögreglunnar af því að minnka reiðufé væru þannig miklir. 

Annað sem lögreglan sér í tengslum við skipulagða brotastarfsemi er að „það er verið að reyna að koma henni að hluta inn í löglega starfsemi og þá er erfiðara að fylgjast með þvættinu,“ að sögn Sigríðar. Á sama tíma eru glæpamenn að nota sérfræðinga til þess að koma fénu undan og sagði Sigríður á fundinum að lögreglan þyrfti líka sérfræðinga. 

Þá hefur það verið til umræðu innan Evrópuráðsins að minnka stærstu seðlana eða taka þá úr umferð. Einfaldlega til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að flytja háar peningaupphæðir milli landa, enda fer meira fyrir seðlunum ef það þarf að flytja þá á milli í miklu magni að sögn Sigríðar.

Evrurnar teknar á landamærunum

Aðspurð hvort væri verið að flytja mikið af íslenskum gjaldeyri milli landa sagði Sigríður svo ekki vera, aðallega væri um að ræða evrur og erlenda gjaldmiðla. „Það þarf að skipta íslenska gjaldeyrinum yfir í erlendan svo eru það aðallega evrurnar sem lögreglan og tollurinn eru að taka á landamærunum," að sögn Sigríðar.

Sigríður segir það því alveg ljóst að það myndi takmarka möguleikann á að koma ólögmætum hagnaði undan ef að reiðufé myndi dragast saman „Þá þyrftu menn að leita annara leiða og þá er það þessi rekjanleiki fyrst og fremst sem við erum að horfa á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert