Tíu ára dómur standist enga skoðun

Geir Gestsson er verjandi Guðjóns Sigurðssonar.
Geir Gestsson er verjandi Guðjóns Sigurðssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíu ára refsing Guðjóns Sigurðssonar í héraðsdómi í fyrra vegna aðildar hans í saltdreifaramálinu svokallaða stenst enga skoðun, að mati verjanda hans og er allt of þung miðað við magn fíkniefnanna og það að Guðjón hafi upplýst um málsatvik.

Þetta var meðal þess sem fram kom í málflutningsræðu Geirs Gestssonar, verjanda Guðjóns, fyrir Landsrétti á þessum síðasta degi aðalmeðferðar málsins.

Saltdreifaramálið varðar annars vegar inn­flutn­ing á am­feta­mín­vökva í miklu magni og hins veg­ar kanna­bis­rækt­un á sveita­bæn­um Hjalla­nesi við Hellu. Voru efnin flutt til landsins með Norrænu frá Hollandi í saltdreifara, en í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva. Var brotið framið í fé­lagi með tveim­ur óþekkt­um er­lend­um aðilum. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila fjar­lægðu þeir am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreif­ar­an­um og fram­leiddu allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu og dreif­ing­ar­skyni.

Guðjón Sigurðsson, bóndi í Hjallanesi, var dæmdur í tíu ára fangelsi í héraðsdómi fyrir vörslu og móttöku saltdreifarans og fyrir að hafa aðstoðað við að fjarlægja amfetamínvökva úr honum.

Aðalmeðferð í saltdreifaramálinu svokallaða lýkur í dag.
Aðalmeðferð í saltdreifaramálinu svokallaða lýkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Neikvæð áhrif á rannsóknarhagsmuni lögreglu

Í málflutningi sínum rakti Geir að tíu ára refsidómur Guðjóns kæmi til með að hafa neikvæð áhrif á rannsóknarhagsmuni lögreglu við rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi. Fái sakborningar engin verðlaun í formi refsimildunar fyrir að segja frá, muni þeir hætta að tjá sig. Skilaboðin séu þau að það borgi sig ekki að upplýsa um slík mál. Það væru hagsmunir þjóðfélagsins að menn sem upplýsa um brot af þessu tagi njóti góðs af því í formi mildunar refsingar.

Anna Barbara Andradóttir saksóknari krefst þyngingar refsingar yfir Guðjóni. Það sé mat ákæruvaldsins að þáttur hans í málinu sé umfangsmeiri en hann hefur haldið fram, en fyrir héraðsdómi kvaðst Guðjón ekki hafa staðið að innflutningi á fíkniefnum eða sölu þeirra. Hann hefði verið fenginn til að kaupa saltdreifarann með félaga sínum og átt að fá peninga fyrir að geyma hann.

Geir sagði hina tíu ára refsingu Guðjóns hins vegar allt of þunga miðað við atvik málsins. Hann sé bóndi að atvinnu með hreina sakaskrá og hafi þar að auki verið „neðstur í keðjunni“. Hann hafi játað með skýlausum hætti þau atriði er snúa að honum og auk þess gefið framburð við rannsókn sem hefði nýst verulega við að upplýsa málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert