Á sama stað þrátt fyrir heimaverkefni

Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB, segir mikilvægt að samningar náist …
Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB, segir mikilvægt að samningar náist um sömu laun, fyrir sömu störf þvert á sveitarfélög. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðræður BSRB og SNS hófust að nýju fyrir stundu  í Karphúsinu. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir margt til umræðu við samningsborðið, en þó helst jöfn laun fyrir jöfn störf innan og þvert á sveitarfélög.

Sonja segir enn bil á milli samningsaðila, en að hún finni fyrir samningsvilja og að allir séu að leggja sig fram við að finna lausn á deilunni. Hún kveðst þó vera með mjög skýrt umboð frá sínu félagsfólki, sem hafi lagt fram skýrar kröfur um hvernig megi ganga frá samningum.

Aldís Sigurðardóttir, annar tveggja sáttasemjara í málinu sagði stöðuna þunga, þrátt fyrir að samningsvilji væri enn til staðar, en hún sendi báða aðila heim í gærkvöldi með heimavinnu. 

Á sama stað þrátt fyrir heimaverkefni

Sonja segir ríkt tilefni til að þessi hópur, sem sé einn sá lægst launaði í samfélaginu, leggi niður störf til að fara fram á betri kjör, en hópurinn hefur ekki lagt störf niður frá árinu 1984.

„Þau ætla ekki að una við það að þau búi við mismunandi launakjör og einhver annar sem er í nákvæmlega sama starfi inni á vinnustaðnum, eða sambærilegum í sveitarfélaginu.“

Fulltrúar ríkissáttasemjara gáfu bæði fólki BSRB og SNS eins konar heimavinnu fyrir fundinn í dag, þ.e. að ræða við sitt fólk og hugsa upp á nýjum lausnum.

Spurð hvort slíkt hafi tekist til hjá BSRB segir Sonja þau í raun vera á sama stað.

„Við erum með mjög skýr fyrirmæli frá okkar fólki um hver niðurstaðan á að vera.“

Sömu laun hjá hinum sveitarfélögunum og hjá Reykjavíkurborg

Spurð hvort eitthvað eitt ágreiningsmál sé að vefjast fyrir í samningaviðræðum segir Sonja margt til umræðu við samningsborðið, en að þau leggi mikla áherslu á jöfn laun innan vinnustaða og þvert á sveitarfélög.  

„Við erum með mjög skýrt umboð frá okkar félagsfólki um hvernig við megum ganga frá þessu. Kröfurnar eru skýrar um réttláta kjarasamninga sem fellst í því að jafna laun innan sveitarfélaganna og innan vinnustaðanna á ársgrundvelli og sömuleiðis þvert á sveitarfélögin. Þannig að það séu sömu laun, fyrir sömu störf hjá Reykjavíkurborg og hinum sveitarfélögunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert