Gleymist að verðbólgan er alþjóðlegt vandamál

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

„Það eru krefjandi tímar í efnahagsmálum landsins og það sem meira er það eru krefjandi tímar í efnahagsmálum heimsins. Það vill nefnilega oft gleymast í umræðunni að verðbólgan er alþjóðlegt vandamál,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir. 

Í ræðu sinni gerði hann víðreist og fjallaði um afrek ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins á krefjandi tímum auk þess sem hann gagnrýndi stjórnarandstöðuna fyrir að hrópa og kalla á meiri ríkisútgjöld.  

Ekki heimatilbúinn vandi 

Eins sagði hann verðbólgu ekki heimatilbúinn vanda eins og skilja mætti af máli margra.

„Það sem gerir ástandið hins vegar sérstakt hér á landi er hinn mikli hagvöxtur. Hér snúast öll hjól á fullu og fjölmargar greinar í miklum vexti. Hér ríkir þensla. Hér ríkir ekki kreppa eins og í sumum löndum Evrópu þar sem hagvöxtur er lítill og atvinnuleysi mikið. Á Íslandi er atvinnuleysi í lágmarki. Hættan er hinsvegar sú að verðbólgan gæti verið að þróast í þann vonda vítahring vixlverkunar hækkunar launa og verðlags. Þá verðbólgu þekkjum við of vel og vitum að það þarf samstillt átak allra til að losa okkur við.“

Sársaukafull en nauðsynleg aðgerð 

Sigurður Ingi gerði stýrivexti að umfjöllunarefni.

„Sársaukinn sem háir vextir valda er minni en sársaukinn af langvarandi hárri verðbólgu sem hefur það í för með sér að verðgildi gjaldmiðilsins lækkar stöðugt og kaupmáttur einnig. Við verðum líka að muna að breytilegir vextir hreyfast ekki aðeins upp á við,“ segir Sigurður Ingi. 

Leggja ekkert til nema aukin útgjöld 

Þá sagði hann það skjóta skökku við að stjórnarandstaðan fárist yfir ríkisútgjöldum. 

„Stjórnarandstaðan sem aldrei leggur neitt til nema aukin útgjöld ríkissjóðs fárast nú yfir einhverju sem þau kalla lausatök í ríkisrekstri. Stjórnarandstaðan sem hefur fátt til málanna að leggja nema aukin útgjöld og aukna skattheimtu hrópar nú að ríkisstjórnin sé stefnulaus og verklaus.“

Næsta samningslota muni ráða lífsgæðum

Þá talaði hann um að hagsmunamál allra væri að húsnæðiskostnaður verði sem lægstur og minnti á að hann hafi nýlega skrifað undir rammasamkomulag við Sambands íslenskra sveitafélaga, m.a. um aukið lóðaframboð. 

Stefnt er að auknu lóðaframboði og uppbyggingu um allt land.
Stefnt er að auknu lóðaframboði og uppbyggingu um allt land. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Til að skapa sátt þarf samtal. Eitt ráðuneyti, ein ríkisstjórn, getur ekki upp á sitt eindæmi skapað sátt í samfélaginu. Aðilar vinnumarkaðarins leika lykilhlutverk í því að skapa sátt. Þess vegna er fátt brýnna en það að forystufólk vinnumarkaðarins og stjórnvöld eigi opið, heiðarlegt og yfirvegað samtal fyrir næstu kjarasamningalotu því sú lota mun ráða miklu um lífsgæði okkar næstu árin,“ segir Sigurður Ingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert