Hundruð milljóna króna til sýnis í Garðabæ

Finnsk frímerki frá síðari heimsstyrjöld og fyrsti seðillinn sem Landsbankinn …
Finnsk frímerki frá síðari heimsstyrjöld og fyrsti seðillinn sem Landsbankinn gaf út. Samsett mynd

Um helgina verður haldin stóra safnara sýningin NORDIA, dagana 2.-4. júní í Ásgarði í Garðabæ. Verður ýmislegt að sjá en verðmæti safngripa hleypur á hundruðum milljóna króna.  

Sýningin er haldin á ári hverju en hún er haldin til skiptist á milli Norðurlandanna. Að þessu sinni er hún haldin á Íslandi, og er það í níunda skiptið. Meðal þess sem sjá má eru frímerkjasöfn víða frá auk íslenskra seðla og muni helgaða Jóni Sigurðssyni svo fátt eitt sé nefnt.  

Aldargamlir seðlar 

Gísli Geir Harðarson, formaður sýningarnefndar NORDIA, segir í samtali við mbl.is að mikið sé lagt upp úr því að bjóða upp á fjölbreytta sýningu sem höfðar til allra. „Það eru t.d. allir íslenskir seðlar frá upphafi þannig að það er mjög fjölbreytt flóra og gaman að sjá seðla allt frá 1780 til dagsins í dag, en nýjasti seðillinn sem er til sýnis er önnur útgáfa af tíu þúsund króna seðlinum sem kom út fyrir tveimur eða þremur mánuðum“. Sjálfur er hann spenntastur fyrir því að sjá skildingabréfin sem sýnd eru í sameiningu við Þjóðskjalasafnið, en þau hafa ekki komið fyrir almenningssjónir í fleiri áratugi og hafa þau einungis einu sinni áður verið sýnd opinberlega. Þeirra á meðal má finna nokkur af þekktustu frímerkjum heims sem mörg hver eru fleiri áratuga eða aldar gömul.   

Fljúga yfir haf til að fá að sjá 

Einnig er nokkuð um það að áhugasamir geri sér ferð til Íslands til að sjá sýninguna með eigin augum, en áhugi fyrir skandinavísku söfnunum er víst mikill hjá bæði Þjóðverjum og Bandaríkjamönnum að sögn Gísla. Þess fyrir utan koma dómarar frá Norðurlöndunum til að dæma frímerkjasöfnin, en flest söfnin sem eru til sýningar, allt að 90% koma erlendis frá. Má því vænta fjölbreyttrar sýningar en Gísli hvetur sem flesta til að mæta og líta þessa fágætu muni augum.

mbl.is