Íhuga að bjóða strákum í sér kynningarferð

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.
Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík. Samsett mynd

„Ég deili þessum áhyggjum og sem foreldri þá fær maður í hjartað að lesa þetta. Eftir stendur að við erum með deildir sem er innan við þriðjung konur og við erum eini háskólinn á Íslandi sem er með meirihluta karlmenn.“

Þetta segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, spurð um viðbrögð sumra foreldra grunnskólabarna við því að stúlkur í níunda bekk í grunnskóla fái boð í kynningarferð í HR en ekki strákar.

Ræða kynningarferð fyrir stráka

Hún segir það vel koma til greina að þau í HR setjist niður og ræði möguleikann á því að bjóða strákum á grunnskólaaldri í sér heimsókn í háskólann og ítrekar jafnframt að skólinn hafi alltaf unnið að því að afmá kynbundnar hugmyndir um allar deildir skólans.

Eins og greint var frá í dag var stúlkum í níunda bekk í Lindaskóla og fleiri skólum boðið í kynningarferð um tæknideildir HR. 800 stúlkur úr grunnskólum víða af landinu munu sækja skólann á mánudaginn en í Lindaskóla er strákunum í níunda bekk boðið upp á boltaleik á skólalóðinni. 

Fyrir stúlkur og stálp

„Þetta er í tíunda sinn sem við höfum þennan alþjóðlega dag og við þurfum að hugsa samtímis eins og við erum að gera í HR. Við erum heldur betur virk í herferð að fá stráka í háskóla en það vantar líka mjög mikið stelpur í tæknigreinar,“ segir Ragnhildur sem bendir á að hlutfallið sé að jafnast í verkfræði en að stúlkur séu undir þriðjungur nemenda í tölvunarfræði. 

Hún ítrekar mikilvægi þess að vinna að bæði á sama tíma og minnir á það að kynningarferðin í HR sé fyrir stúlkur og stálp. Hún segir það vera grundvallarmál að kveikja áhuga hjá stúlkum og stálp á tæknigreinum.

Jafnframt nefnir hún að þau séu farin að fá stúlkur í tölvunarfræði sem segja áhugann hafa vaknað í þessari kynningarferð sem hefur nú farið fram árlega í tíu ár.

Höfum ekki efni á að láta fordóma skemma fyrir

„Við vorum með átak í fyrra um að fá stráka í sálfræði og með átak með háskólamálaráðuneytinu að fá stráka í háskóla en við höfum ekki farið svona langt niður í aldri gagnvart strákum en höfum verið að fá stráka niður á fyrstu ár framhaldsskóla hér í hús á opnu húsunum.“

Hún kveðst nú íhuga það hvort það eigi að búa til kynningarátak fyrir stráka í grunnskóla á móti þessari kynningarferð sem stúlkurnar fá og segir það flotta hugmynd.

„Línan okkar er sú að í jafn litlu þjóðfélagi og okkar verða allir að nota hæfileikana sína. Við höfum ekki efni á því að láta einhverjar fordóma um hvað stelpur gera og hvað stálp gera og hvað strákar gera skemma fyrir því að fólk læri það sem það er best í og nýti hæfileikana sína.“

Hún segir það nauðsynlegt að grafa undan því hversu kynjað námsval er og segir að skólinn geri allt sem í sínu valdi stendur til að afmá þær hugmyndir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina