Magnús og Margrét hlutu bókmenntastyrki

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra, Magnús Jochum Pálsson, Margrét Marteinsdóttir og …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra, Magnús Jochum Pálsson, Margrét Marteinsdóttir og Hrefna Haraldsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti í gær Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta til tveggja höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og nemur hvor styrkur hálfri milljón króna. Höfundarnir eru þau Magnús Jochum Pálsson og Margrét Marteinsdóttir.

Fram kemur í tilkynningu, að árlega veiti Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira, að því er segir í tilkynningu. 

Magnús hlaut styrk fyrir ljóðabókina Mannakjöt. Magnús er 25 ára ritlistarnemi og blaðamaður. Sumarið 2018 gaf hann út örsagnasafnið Óbreytt ástand. Síðan hafa ljóð og sögur birst eftir hann í tímaritum, ljóðasöfnum og útvarpi. Eftir að hafa lokið BA-námi í Íslenskum fræðum við Háskóla Íslands sumarið 2021 hóf hann meistaranám í ritlist við sama skóla. Samhliða námi hefur hann unnið við grunnskólakennslu og blaðamennsku, hvort tveggja störf sem hafa gefið honum innsýn inn í íslenskt samfélag.

Margrét hlaut styrk fyrir skáldsöguna Grunnsævi. Margrét er fædd árið 1971 og uppalin í Breiðholti. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og stundaði nám í sagnfræði og stjórnmálafræði við HÍ. Stærstan hluta starfsævinnar hefur Margrét unnið í fjölmiðlum. Hún starfaði hjá RÚV í 16 ár við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi og sem fréttakona í sjónvarpi. Hún hefur komið víðar við undanfarin ár, meðal annars unnið á hjúkrunarheimilinu Grund, í Kvennaathvarfinu, á Gljúfrasteini og hjá Geðhjálp. Margrét starfar nú sem blaðakona á Heimildinni, að því er segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert