Nagandi óvissa í Einarsnesi

Reykjavíkurflugvöllur hefur löngum verið umdeildur. Er hann ómissandi hluti af …
Reykjavíkurflugvöllur hefur löngum verið umdeildur. Er hann ómissandi hluti af miðbæjarímynd Reykjavíkur eða tímaskekkja á nýrri samgönguöld? mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ekkert á móti þessari flugvallarbyggð, bara svo það sé sagt, og er alls ekkert að fetta fingur út í skipulagið,“ segir Elín Jónasdóttir veðurfræðingur, íbúi við Einarsnes í Skerjafirði, en skipulagsmál vegna uppbyggingar þar á svæðinu hafa orðið töluvert þrætuepli undanfarin misseri og snertir þó langt í frá allt sjálft flugvallarmálið, það er að segja hvort völlurinn skuli áfram vera á sínum stað í Vatnsmýrinni.

Elínu Björk Jónasdóttur veðurfræðingi er umhugað um náttúru landsins, þar …
Elínu Björk Jónasdóttur veðurfræðingi er umhugað um náttúru landsins, þar með talið fjörunnar í Skerjafirði. En skipulagsmál og þungaflutningar þar í hverfinu hvíla einnig þungt á henni og öðrum íbúum. Ljósmynd/Almannavarnir

„Mjög háværar raddir hafa gert baráttu hverfisins að baráttunni fyrir flugvellinum,“ heldur Elín áfram og segir góðra gjalda vert, öllum sé auðvitað frjálst að hafa sínar skoðanir. „Þetta hefur samt orðið til þess að borgaryfirvöld hafa ekki tekið ábendingum eða áhyggjum, sem snúa beint að framkvæmdinni, alvarlega og við höfum ekki fengið nein viðeigandi svör við spurningum finnst okkur,“ segir Elín.

Þrettán þúsund farmar

Kveðst hún einkum hafa athugasemdir við væntanlega umferð vörubifreiða um Einarsnes. „Ég bý í húsi sem stendur mjög nálægt götunni. Ef útreikningar þeirra sem hafa verið að skoða þetta eru réttir, eru þetta þrettán þúsund farmar af olíumenguðum jarðvegi sem þarf að flytja þarna burt og sú umferð á að fara um Einarsnes í fyrstu og síðar verði fundin önnur leið,“ segir Elín og vísar til áætlana um sérstakan framkvæmdaveg sem svo muni taka við.

Hins vegar hafi engin tímaáætlun verið lögð fram um hvenær þessi framkvæmdavegur muni taka við umferðinni. Fundur hafi verið haldinn um deiliskipulagið en sá var haldinn rafrænt og engum spurningum svarað þar.

Frá 80 ára afmælishátíð flugvallarins í júlí 2021.
Frá 80 ára afmælishátíð flugvallarins í júlí 2021. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem mínar spurningar snerust um var það sem stendur á upplýsingasíðunni um að vöruflutningar fari fyrst um sinn um Einarsnes til vesturs en stefnt sé að því að opna nýjan framkvæmdaveg suður fyrir Reykjavíkurflugvöll þar sem meginþorri umferðar vegna framkvæmda við nýtt hverfi muni fara. Ég spyr hvað meginþorri umferðar sé í þessu samhengi, eru það tuttugu prósent, fyrstu mánuðurnir eða ár og er einhver þungaflutningaumferð um Einarsnes allan framkvæmdatímann þá?“ spyr Elín.

Vitnar hún í þau orð af upplýsingasíðunni um framkvæmdirnar að reynt verði að takmarka eftir föngum alla umferð um núverandi Einarsnes meðan á framkvæmdum standi.

Svifryk, hávaði og hætta

„Einarsnes er enn þá fimmtíugata [með hámarkshraðanum 50 km/klst.] og það er málaður hjólastígur á götuna sem er mjög mikið notaður. Gatan er ein og hálf breidd, öðrum megin við hana eru bílastæði, það eru tvær þrengingar á henni og þessi hjólastígur og við fáum engar upplýsingar um þetta,“ segir Elín og er langt í frá ánægð með upplýsingastreymi borgarinnar.

Nefnir hún svifryk, hávaða og almenna hættu meðal þess sem íbúar við Einarsnes hafi áhyggjur af þegar tekið verður að flytja olíumengaða jarðveginn á brott fyrir byggingarframkvæmdirnar á flugvallarsvæðinu.

Reykjavíkurflugvöllur, Hallgrímskirkjuturn og Esjan, þrjú rótgróin minni borgarinnar, eitt þó …
Reykjavíkurflugvöllur, Hallgrímskirkjuturn og Esjan, þrjú rótgróin minni borgarinnar, eitt þó meira þrætuepli en hin. mbl.is


„Svo segir hérna „Ábendingum um lækkaðan hámarkshraða um Einarsnes á framkvæmdatímanum vegna öryggisástæðna verður komið til samgöngustjóra sem tekur afstöðu til málsins,“ og við höfum ekkert heyrt af því. Svo er búið að hanna nýtt Einarsnes og sú hönnun er miðuð við nýtt hverfi og fullbyggt flugvallarsvæði. Það er fyrir innan núverandi öryggisgirðingu á austur-vesturflugbrautinni sem gengur út í Skerjafjörð. Samhliða þessum skipulagsfundi var haldin kynning á þessu nýja Einarsnesi og hún var bara ófullgerð, það var bara ekki búið að leysa það hvernig þetta verður gert. Kannski er búið að leysa það núna, það eru liðin tvö ár. En við höfum alla vega ekkert heyrt af því,“ segir Elín.

Fátt um svör

Eins segir hún gert ráð fyrir að öll umferð inn í nýtt hverfi fari um Einarsnes. Áður en flugvöllurinn fer verði eina leiðin, til þess að komast á bíl inn í nýja hverfið, um Einarsnesið.

„Það er verið að beina öllu hverfinu í botnlanga um Einarsnesið og það skiptir mjög miklu máli fyrir íbúana að vita hvort þarna sé átt við núverandi Einarsnes eða nýja Einarsnesið. Auk þess er skýrslan um Hvassahraun [nýjan innanlandsflugvöll] ekki komin og við vitum ekki hvernig verður með flugið eða hvenær það fer. Allar þessar lausnir gera ráð fyrir að flug leggist af á Reykjavíkurflugvelli en við fáum engin svör um hitt, hvað ef það gerist ekki?“ spyr Elín og kveður íbúa á svæðinu ráðvillta.

Elín segir þrívegis hafa verið ekið utan í bifreiðar framan …
Elín segir þrívegis hafa verið ekið utan í bifreiðar framan við hús hennar í Einarsnesi, gatan er aðeins ein og hálf breidd og hjólreiðastígur málaður á hana miðja. Kann það góðri lukku að stýra að 13.000 vörubílsfarmar af olíumenguðum jarðvegi fari þar um? mbl.is/Júlíus

Sem dæmi um þrengslin á Einarsnesinu segir Elín strætisvagna borgarinnar í þrígang hafa ekið utan í bifreiðar fyrir utan hennar hús, þar af tvisvar utan í bifreiðar í eigu hennar fjölskyldu. „Við höfum bara áhyggjur af öryggi hjólandi og gangandi og allra annarra á þessum tíma,“ segir hún.

Klóþangsklungur og stórþari

Við vendum kvæði okkar í kross. Umferðarmálin um Einarsnes eru eitt en veðurfræðingurinn bendir einnig á fyrirhugaða landfyllingu. „Þetta er kannski ekki fallegasta fjaran í borginni en hún er mikil matarkista fyrir fugla sem hafa veturdvöl á Íslandi. Náttúrufræðistofnun skrifaði mjög harðorða umsögn um þessa landfyllingu sem er enn þá í umhverfismati. Haft var eftir Pawel Bartoszek [borgarfulltrúa] að það yrði að byggja á þessari landfyllingu, annars yrði hverfið, sem sagt Nýi-Skerjafjörður, ekki sjálfbært,“ segir Elín og vísar til ónógs íbúafjölda.

Búið sé að selja væntanlegum íbúum þá hugmynd að þarna verði leikskóli, grunnskóli, verslun og hvaðeina en þetta sé hins vegar allt í öðrum áfanga hverfisins. „Það þarf því að fórna fjöru sem er mjög líffræðilega fjölbreytt, hefur til dæmis klóþangsklungur, sem hefur hátt verndargildi, og stórþara sem tekur upp mikinn koltvísýring. Svo er talað um að fjörukambinn eigi að byggja upp þannig að lífríkið geti lagað sig að honum sem er eiginlega bara vísindaskáldskapur því það hefur hvergi verið gert þannig að tekist hafi,“ segir Elín og hefur áhyggjur af lífríki fjörunnar.

Rætt er um að flugvöllur í Hvassahrauni geti ef til …
Rætt er um að flugvöllur í Hvassahrauni geti ef til vill orðið til reiðu árið 2040. Hvað sem því líður mun flugumferð um Reykjavík alltént ekki heyra sögunni til alveg næstu daga. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Mín einlæga spurning til yfirvalda er hvort ekki sé einfaldara að bíða bara með að ráðast í þetta, með öllum þeim vandamálum sem því fylgja, og byggja þá frekar annars staðar í borginni, þar til flugvöllurinn fer, því þá leysast öll þessi verkefni. Þá þarf ekki landfyllinguna til þess að svæðið verði sjálfbært því þú ert með allt [póstnúmerið] 102 undir.“

Farið í manninn en ekki málefnin

Hvernig er samstaðan meðal íbúa svæðisins þegar litið er til þessara framkvæmdamála allra?

„Fólk er sammála að mestu leyti um að við þurfum svör við þessum spurningum um þungaflutningana, umferðina og fjöruna. Svo er hins vegar mjög mismunandi hvað fólki finnst um þá aðferðafræði að vera alltaf að spyrða flugvöllinn og nýtingu hans saman við baráttu íbúanna. Þar er ekki einhugur en það er einhugur um hitt,“ svarar Elín og kveður breitt pólitískt bil í þessum íbúahópi eins og öðrum.

„Fólk hnýtir hvert í annað og fer í manninn en ekki málefnið eins og gengur og gerist, þetta er náttúrulega bara heitt mál en mér sýnist við vera að komast að einhverri niðurstöðu um að við verðum að reyna að fá samtöl um málefnin sem við erum sammála um að þurfi svör við,“ heldur Elín áfram.

Elín kýs að þeir sem berjast vilja fyrir flugvellinum eða …
Elín kýs að þeir sem berjast vilja fyrir flugvellinum eða brotthvarfi hans geri það undir eigin merkjum, ekki í nafni íbúa Skerjafjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Þeir sem vilji berjast fyrir því að halda flugi á Reykjavíkurflugvelli verði svo bara að berjast fyrir því undir eigin nafni, ekki undir merkjum íbúa Skerjafjarðar, og það sama gildi um þá sem berjast vilja gegn flugi á svæðinu.

„Til dæmis var verið að tala um eignaupptöku í Skerjafirði og Dagur [B. Eggertsson borgarstjóri] svaraði því að það væri náttúrulega alveg fráleitt. En á meðan hann er að svara einhverjum svona spurningum þá er hann ekki að svara spurningunum sem við erum að reyna að fá svör við,“ segir Elín Jónasdóttir veðurfræðingur að lokum um þau mál sem hve heitast brenna á henni og nágrönnum hennar þessi dægrin og varða umferð, skipulag og framtíð byggðar við Skerjafjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert