Segir tal um hrossakaup úr takti við raunveruleikann

Vatnsendahvarf og Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.
Vatnsendahvarf og Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Samsett mynd

„Allt tal um það að þessi vegur sé hluti af einhverjum hrossakaupum um Borgarlínuna og annað er úr öllum takti við einhvern raunveruleika. Þetta var ákveðið löngu áður en að Borgarlínan var hugmynd.“

Þetta segir Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, um gagnrýni Vina Vatnsendahvarfs á fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegar. 

„Ég hef séð Vini Vatnsendahvarfs koma með tillögur um að leggja veginn öðruvísi en bara yfir önnur græn svæði í Kópavogi, bara aðeins fjær sér, sem segir kannski allt um afstöðu þessa fólks.“

Íbúar ósáttir

Eins og áður hefur verið greint frá vísaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá tveimur kærum sem Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdals, ásamt tugum íbúa, lögðu fram vegna Arnarnesvegar. 

Íbúar eru hvað mest óánægðir með hvernig fyrirhugað er að leggja veginn og að umhverfismatið sem liggur til grundvallar fyrir framkvæmdunum sé frá árinu 2003. Þá halda þau jafnframt fram að lögbundið samráð við íbúa hafi verið sniðgengið.

Skrítin söguskýring hjá Vinum Vatnsendahvarfs

„Mér finnst þetta skrítin söguskýring hjá Vinum Vatnsendahvarfs og í engum takti við raunverulegan aðdraganda þessa vegarkafla. Hver sem er getur séð, með því að skoða svæðisskipulag frá árinu 2001, að þá er talað um þennan veg,“ segir Andri sem bendir á að það hafi verið fyrirhugað að leggja veginn allt frá aldamótum.

Hann gefur því lítið fyrir allt tal um pólitísk hrossakaup og ítrekar að Arnarnesvegur hafi verið ákveðinn áður en Borgarlínan var orðin að einhvers konar hugmynd.

Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Vina Vatnsendahvarfs, sagði í samtali við mbl.is í gær að að hennar mati væri vegurinn hrossakaup á milli Reykjavíkurborgar og Kópavogs og að Kópavogsbær hefði ekki samþykkt Borgarlínuna nema að Arnarnesvegur yrði samþykktur.

Hann bendir á að vegurinn hafi alltaf verið hluti af samgönguáætlun en hafi tafist vegna erfiðleika við að tryggja fjármögnun. 

Viðbragðstíminn óviðunandi á svæðinu

Hann ítrekar jafnframt mikilvægi þess að stytta viðbragðstíma bráðaliða að íbúðahverfum í efri byggðum Kópavogs og segir Arnarnesveg grundvallarhlekk í því.

„Þessar efri byggðir eru utan viðunandi þjónustutíma allra viðbragðsaðila. Það eitt og sér er mjög alvarlegt mál. Þessi vegur er forsenda þess að þessi hverfi gátu byggst upp.“

Hann bendir á gögn úr brunavarnaáætlun slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem kemur fram að við bestu aðstæður sé viðbragðstími undir tíu mínútum í 37 prósentum tilvika í póstnúmeri 203 í Kópavogi samanborið við að í öllum hverfum Reykjavíkur fyrir utan Kjalarnes sé útkallstími undir tíu mínútum í 98,9 prósentum tilvika við bestu aðstæður. 

Ósáttur við breytingar á gatnamótunum

Hann bætir þá við að vegurinn hafi ekki jafn mikið rask í för með sér og upprunalega var gert ráð fyrir þar sem breyting hefur verið gerð á gatnamótunum við Breiðholtsbrautina úr mislægum gatnamótum í ljósastýrð gatnamót. Að mati Andra er þessi breyting mistök og segir hann þetta koma til með að raska umferðarflæði.

„Þetta þýðir að vegtenging Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar er orðin minni en hún var á sínum tíma. Þetta dregur þó úr umferðarflæði og þarna er verið að setja ljósastýringu á gatnamótin sem mér skilst að sé fáheyrt að tíðkist í Evrópu.

Þetta var krafa Reykjavíkurborgar og kalt hagsmunamat Kópavogsbæjar er að fallast á þetta frekar en að tefla á tvær hættur með það að pólitíkin í borginni beiti sér gegn þessu yfir höfuð. Við getum ekki beðið lengur með Arnarnesveg.“

mbl.is