Viljum ekki hafa öll eggin í sömu körfu

Gunnar Jakobsson aðstoðarseðlabanka­stjóri fjár­mála­stöðug­leika
Gunnar Jakobsson aðstoðarseðlabanka­stjóri fjár­mála­stöðug­leika mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seðlabanki Íslands áformar að þróa nýtt innlent greiðslukerfi, sem mun gegna mikilvægu öryggishlutverki á næstu árum þegar seðlar og mynt koma til með hverfa líkt og Gunnar Jakobsson, aðstoðarseðlabanka­stjóri fjár­mála­stöðug­leika, gerir ráð fyrir. 

Seðlabanki Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að vinna við innleiðinguna innlendrar, óháðrar smágreiðslulausnar hér á landi, sem byggist á greiðslum milli greiðslureikninga, verði leidd af seðlabankanum. 

Í mars birti mbl.is fréttir af því að Seðlabanki Íslands tel­di þjóðhags­lega ógn stafa af nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi smá­greiðslumiðlun­ar hér á landi. Var það vegna þess að stærst­i hluti miðlun­ar­inn­ar fer í gegn­um kerfi er­lendra fyr­ir­tækja.

Unnið hafði verið að lausn með inn­lend­um aðilum og var stefnt á lagasetningu sem myndi kveða á um að miðlunin ætti að fara fram hér á landi ef ekkert kæmi út úr vinnunni á næstu vikum. Nú tæpum þremur mánuðum seinna er vinnan enn í gangi og ekki hefur enn þótt tilefni til lagasetningar, Gunnar telur þó skynsamlegt að halda áfram með löggjafavinnuna.

Þrjár stoðir greiðslumiðlunar

Til skýringar snýst óháð smágreiðslulausn um það tryggja viðnámsþrótt í kerfinu í framtíðinni. „Þó greiðslukort eigi algjörlega sitt hlutverk þá viljum við ekki hafa öll eggin í sömu körfunni“ að sögn Gunnars.

Í dag erum við með þrjár stoðir greiðslumiðlunar, reiðufjár, greiðslukort og millifærslur, ef greiðslukort detta út af einhverjum ástæðum til dæmis vegna viðskiptaþvingana eða vegna þess að raskanir verða á sæstreng þá viljum við að það sé önnur leið til staðar. Að sögn Gunnars viljum við samt sem áður ekki að það sé einhverskonar varaleið, „leið uppi á hillu sem þarf að dusta rykið af þegar við þurfum nauðsynlega á því að halda“, það þarf að koma á varanlegri lausn.

Gunnar segir innviðina vera að miklu leiti til staðar og fjárfestinguna þar af leiðandi tiltölulega væga. Nú sé í gangi sú vegferð að ná að gera þetta í sameiningu innlánsstofnanna og seðlabanka. 

Hvaða þýðingu hefur þetta?

Aðspurður hvaða þýðingu vinnan hefur sagði Gunnar reiðufé, seðla og mynt bara ákveðna leið til þess að greiða með íslenskum lögeyri sem gefinn er út af seðlabankanum og eru peningar sem seðlabankinn stendur að baki. „Í eina tíð voru skeljar og silfurpeningar tegund greiðsluleiðar svo þetta er bara tækni sem mun renna sitt skeið og annað kemur í staðinn“ að sögn Gunnars. Reiðufé kemur þó ekki til með að hverfa á næstu tíu árum en í framtíðinni er mögulegt að í staðin komi rafræn seðlabankamynt sem verður þá eins og hver önnur greiðsluaðferð. 

Innleiðingunni skipt í tvennt 

Vinnan fer fram í vinnuhópi með innlánsstofnun sem stofnaður var af framtíðarvettvangi sem settur var á fót af Seðlabanka Íslands fyrir framtíðarstefnumótun fyrir fjármálainnviði í landinu.

Innleiðingunni hefur verið skipt í tvennt, annars vegar í grunninnvið sem er miðlæg lausn fyrir greiðslufyrirmæli og hins vegar lausn fyrir neytendur sem tekur á móti og sendir fyrirmæli í gegnum grunninnvið.

Leita eftir þátttakendum

Grunninnviðurinn verður opinn öllum sem hafa tilskilin leyfi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að bjóða upp á greiðsluvirkjun og uppfylla tækni- og öryggiskröfur tilvonandi skema. Grunninnviðurinn skal hafa samræmda nálgun í auðkennis- og öryggistækni gagnvart innlánsstofnunum og vera hýstur innanlands.

Vinnuhópurinn leitar jafnframt eftir upplýsingum um mögulegar lausnir sem gætu nýst við innleiðingu á grunninnviði fyrir innlenda óháða smágreiðslulausn eða samtali við einstaklinga sem hugsanlega eru með lausnir fyrir grunninnvið. Er áhugasömum bent á að hafa samband við Greiðsluveituna, sjálfstætt starfandi einkahlutafélags í eigu Seðlabanka Íslands sem hefur umsjón með framtíðarvettvanginum, á netfangið fv@gv.is fyrir 25. júní 2023. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert