Bjóða 1.200 starfsmönnum í hvataferð til Íslands

Amazingtours mun þjónusta um 1.200 Indverja.
Amazingtours mun þjónusta um 1.200 Indverja. Ljósmynd/Amazingtours

Indverskt fyrirtæki er um þessar mundir að senda um 1.200 starfsmenn sína til Íslands í svonefnda hvataferð. Um er að ræða fimm hópa og komu fyrstu hóparnir hingað í maí en þeir síðustu koma nú í júní.

Íslenska ferðaþjónustufyritækið Amazingtours sér um móttöku fólksins. Segir Jón Kristin Jónsson, eigandi þess, að íslenska utanríkisráðuneytið hafi sett skilyrði fyrir vegabréfsáritunum sem leiddu til þess að Íslandsheimsóknin styttist um einn dag og landið hafi orðið af um 200 milljóna króna tekjum vegna þess.  

Sleðaferð á Langjökli

Hvernig þjónustið þið starfsmennina?  

„Við förum með alla á sleðaferð á Langjökli þar sem þeir, ásamt kokkateyminu sínu  munu elda sér hádegismat. Við leigjum Friðheima fyrir þá seinnipart dags og daginn eftir förum við með þá á suðurströndina,“ segir Jón Kristinn. 

Um er að ræða starfsmenn fyrirtækisins Asian Paints, sem er stærsta málningarvöruframleiðandi Indlands. Aðaleigandi þess er Ashwin Dani, einn ríkasti maður Indlands.

Koma í fimm hollum

 „Við höfum aldrei rekist á þau vandamál áður að fólk utan Schengen-svæðisins fái ekki vegabréfsáritanir í svona stórum stíl," segir Jón Kristinn. „Við erum búin að taka á móti fyrstu þremur hópum, fjórði hópurinn kom í gær og síðasti hópurinn kemur 7. júní,“ segir hann.

Að þjónusta svona stóran hóp er áskorun segir Jón en líka afskaplega skemmtilegt.

„Við erum með fimm manns í þessari hvataferðadeild í fyrirtækinu en við bætum við tveimur starfsmönnum þegar við erum með svona stór verkefni,“ bætir hann við.

Hann segir hvataferðir vera sérheim innan ferðaþjónustunnar.

Enginn hægðarleikur

Það var aftur á móti enginn hægðarleikur að koma þessum hópi til landsins að sögn Jóns, en Indland er utan Schengen-svæðisins.

„Við höfum aldrei rekist á þau vandamál áður að fólk utan Schengen-svæðisins fái ekki vegabréfsáritanir í svona stórum stíl.“

Utanríkisráðuneytið hafi sett það skilyrði að börn undir 18 ára fengju ekki að koma með og að ekki yrðu veittar nema 700 vegabréfsáritanir.

Niðurstaðan varð sú að Indverjarnir fengu vegabréfsáritanir í Frakklandi og voru þá komnir inn á Schengen-svæðið.  

Verið að eyðileggja markaðssetninguna

„Þeir áttu að vera hér upphaflega í fimm daga ferð og halda hátíðarkvöldverð í Hörpu eða Laugardagshöll en af því varð ekki því þeir þurftu að bæta við einni nótt í Frakklandi,“ segir hann.

Hann segir að Icelandair sé í mikilli markaðsherferð ásamt Íslandsstofu á Indlandi til að auglýsa Íslands sem ferðamannaland og þessi afstaða utanríkisráðuneytisins hafi skaðað þá vinnu. 

„Asian Paints sendi 420 manna hóp til Íslands árið 2018, alveg eins og við erum að meðhöndla núna, og þá voru engin vandamál.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: