Hoppaði á þaki og vélarhlíf bifreiðar

Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan að störfum í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur eftir að hafa valdið eignaspjöllum með því að hoppa á þaki og vélarhlíf bifreiðar. Hann var vistaður í fangaklefa.

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á Lækjartorg þar sem maður svaf ölvunarsvefni. Þegar hann var vakinn brást hann hinn versti við og réðst að lögreglunni. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar sem hann gat haldið áfram að sofa þar til ástand hans lagast, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.

Alls voru 120 mál skráð á þessu tímabili og því mikið að gera hjá lögreglunni.

Lögreglan í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Ari

Bílvelta og eignaspjöll 

Bílvelta varð á Heiðmerkurvegi og var einn fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Eignaspjöll voru unnin á skólabyggingu í miðbæ Reykjavíkur þar sem útidyrahurð hafði verði skemmd.

Þá var manni í annarlegu ástandi sökum ölvunar og fíkniefna vísað út af hóteli í miðbæ Reykjavíkur.

Einstaklingur var handtekinn í Grafarholti vegna líkamsárásar og eignaspjalla. Hann var í annarlegu ástandi og vistaður í fangaklefa.

Annar var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar í miðbæ Kópavogs.

mbl.is