Mótmælin aðeins byrjunin: 250 þúsund undirskriftir

Gangan var leidd af dönsurum sem héldu á hvalabeinum og …
Gangan var leidd af dönsurum sem héldu á hvalabeinum og kór sem söng íslenskar vísur. mbl.is/Óttar

Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna, segir að mótmælin gegn hvalveiðum sem standa nú yfir í Reykjavík, séu aðeins byrjunin á baráttu samtakanna gegn hvalveiðum.

Fleiri en 200 eru nú samankomnir á Hjartatorgi á mótælunum HVALIR KVALIR“, sem samtökin standa fyrir, til að mótmæla veiðileyfi Hvals hf. í sumar. Ásamt Ungum umhverfissinnum standa Hvalavinir, Samtök grænkera á Íslandi, Samtök um dýravelferð á Íslandi og Smekkleysa fyrir mótmælunum.

250 þúsund manns skrifað undir

Finnur segir næsta skref vera að afhenda Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra undirskriftalista samtakanna um að stöðva hvalveiðar en um 250 þúsund manns hafa skrifað undir lista samtakanna á netinu.

Undirskriftalistar samtakanna eru tveir. Einn er alþjóðlegur þar sem 232 þúsund manns hafa skrifað undir en hinn er fyrir Íslendinga þar sem fólk skilur eftir nafn og kennitölu en þar hafa um 18 þúsund skrifað undir.

Ef veiðileyfið verður ekki afturkallað hyggjast samtökin stefna íslenska ríkinu og Hval hf., að sögn Finns.  

Finnur segir mótmælin í dag hafa gengið vel og eru þau vel sótt. Mótmælendur söfnuðust saman á gömlu höfninni í Reykjavík og gengu þaðan í sameiningu að Hjartatorgi. Á viðburðinum á Facebook kemur fram að þetta sé gert í anda ferðalaga sem langreyðar fara í á hverju ári, frá Asóreyjum fram hjá Íslandi og til Svalbarða. Gangan var leidd af dönsurum sem héldu á hvalsbeinum og kór sem söng íslenskar vísur.

Úrgangur hvala mikilvægur fyrir hafið

„Það eru svona 200 til 250 manns samankomnir á Hjartatorgi. Það er mjög líklegt að það bætist í hópinn með kvöldinu. Björk er náttúrlega með mikið aðdráttarafl og talar fyrir málstaðnum,“ segir Finnur en ýmsir tónlistarmenn koma fram á viðburðinum á Hjartatorgi.

Má þar helst nefna Högna, JDFR og Björk. Þá er Saga Garðarsdóttir kynnir á viðburðinum en Kristín Vala Ragnarsdóttir og Kata Oddsdóttir verða með stuttar ræður.

„Markmiðið okkar er að koma í veg fyrir að hvalveiðar fari fram í sumar. Rökin á bak við það er mikilvægi hvala í sjávarvistkerfum. Margar rannsóknir styðja við það að hvalir spili lykilhlutverk í sjávarvistkerfum. Úrgangur hvala er nauðsynlegur fyrir næringarhringrás í hafinu.“

Um 250 manns eru samankomnir á Hjartatorgi.
Um 250 manns eru samankomnir á Hjartatorgi. mbl.is/Óttar

Ímynd landsins ekki útgangspunkturinn

Hann ítrekar mikilvægi þess að við sem þjóð stuðlum ekki að iðnaði sem hefur neikvæð áhrif á umhverfið og lífsgæði framtíðar kynslóða. 

„Þetta hefur ekki góð áhrif á orðspor okkar Íslendinga en það er ekki endilega okkar útgangspunktur. Fyrir okkur skiptir ímynd landsins ekki öllu máli heldur frekar hvernig við getum byggt betra samfélag fyrir okkur sjálf og varðveitt náttúruna.“

Hann segir baráttu hópsins vekja mikla athygli fyrir utan landsteinanna og bendir á að 230 þúsund undirskriftir hafi safnast á alþjóðlega undirskriftalistann. 

„Við höfum fengið mikinn stuðning frá fjölmörgum alþjóðlegum aðilum. Til dæmis Extinction Rebellion og Jason Momoa og fleiri áhrifavöldum erlendis.“

Verða að vera vongóð

Spurður hvort að þau séu vongóð um að stjórnvöld taki mark á kröfum þeirra svarar Finnur því játandi.

„Við erum alltaf vongóð. Við þurfum að vona að stjórnvöld hlusti á það sem þjóðin vill og taki ákvarðanir í takt við gildi samfélagsins. Ákvarðanir þurfa að endurspegla það neyðarástand sem við stöndum frammi fyrir þegar það kemur að loftslagsbreytingum.“

Frá Hjartatorgi.
Frá Hjartatorgi. mbl.is/Óttar
mbl.is