Sveitarfélagið ekki framið verkfallsbrot

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar. Ljósmynd/Snæfellsbær

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, vísar ásökunum um verkfallsbrot á leikskólum sveitarfélagsins á bug. Hann segir ákveðna starfsmenn hafa fengið undanþágu frá verkfallinu og það hafi tíðkast síðustu ár að færa starfsmenn og börn milli deilda og leikskóla.

Greint var frá því fyrr í dag að BSRB hyggst stefna Snæfellsbæ fyrir Félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota á leikskólum í Ólafsvík og á Hellissandi.

Í samtali við mbl.is segist Kristinn ekki hafa séð stefnuna og tekur fram að hann hafi fyrst heyrt hennar getið í fjölmiðlum í morgun. Hann kvaðst þó ekki mótfallinn því að málið yrði tekið fyrir af Félagsdómi enda væri gott að fá niðurstöðu í það.

Sá ekki erindið

Í til­kynn­ingu frá BSRB í morgun seg­ir að verk­falls­brot­in hafi ít­rekað verið fram­in frá upp­hafi vik­unn­ar þrátt fyr­ir kröfu Kjal­ar, aðild­ar­fé­lags BSRB, um að látið yrði taf­ar­laust af hátt­sem­inni. Kjölur hafi sent erindi á bæjarstjóra á miðvikudag en ekkert svar hafi fengist. 

Spurður út í erindið segist Kristinn hafa verið erlendis og því ekki svarað. Svar hafi þó borist frá tölvupósti hans sjálfkrafa þar sem sendandi var upplýstur um að ef erindið væri brýnt væri hægt að beina því á bæjarritara. Aðspurður kvaðst Kristinn ekki vita hvort að erindið hafi verið sent á annan viðtakanda.

Algengt að börn séu flutt á milli deilda og skóla

Í tilkynningu BSRB kemur jafnframt fram að hin meintu verkfallsbrot hafi farið fram með þeim hætti að venjubundnu skipulagi á starfsemi leikskólanna hafi verið mikið breytt til að draga úr áhrifum verkfallsins, til að mynda með tilfærslu barna milli deilda og jafnvel leikskóla. 

Þá hafi annað starfs­fólk sem ekki hef­ur heim­ild til ít­rekað gengið í störf verk­falls­fólks. Aðstoðarleik­skóla­stjóri og sér­kennslu­stjóri hafi unnið inni á deild­um og leyst þannig af starfs­fólk í verk­falli.

Spurður út í þessi atriði segir Kristinn alls ekki óvanalegt að starfsfólk og börn leikskólanna séu flutt milli deilda og leikskóla. Það hafi tíðkast í mörg ár. Til að mynda sé það gert þegar börnum fækki á leikskólunum, eins og yfir jól og áramót. Þegar veður sé slæmt og ekki ráðlegt að ferðast milli bæja fari börn og starfsfólk á þann leikskóla sem næstur er óháð starfsstöð.

Bað um undanþágur

Hvað varðar ásakanir um að starfsfólk hafi gengið í störf, segir Kristinn að listi hafi verið sendur á Kjöl þar sem farið var fram á að ákveðnir starfsmenn væru undanþegnir frá verkfallinu, m.a. aðstoðarleikskólastjórinn. Að sögn Kristins bárust engin mótmæli og var listinn samþykktur. 

Þá tekur hann fram að leikskólarnir hafi ekki verið að starfa á fullum afköstum, eins og margir kunna að halda. 

Hann telur sveitarfélagið ekki hafa gert neitt rangt en ef svo er væri gott að fá úrskurðað um það og er hann ekki mótfallinn því að málið fari fyrir Félagsdóm.

mbl.is