Tvíburar í tónlist

Tryggvi og Júlíus eru í hljómsveitinni Ástarpungunum frá Siglufirði.
Tryggvi og Júlíus eru í hljómsveitinni Ástarpungunum frá Siglufirði. mbl.is/Ásdís

Tryggvi og Júlíus eru tvítugir eineggja tvíburar á Siglufirði sem vita fátt skemmtilegra en að spila tónlist. Þeir eru ekki innfæddir Siglfirðingar því barnsskónum slitu þeir í Kópavogi en þegar þeir voru þrettán ára fluttu þeir ásamt móður sinni norður.

„Það var mjög mikil breyting en jákvæð,“ segir Tryggvi og Júlíus tekur undir það.

„Við vorum nú ekkert á því að flytja út á land, en þetta hefur opnað á mörg tækifæri. Ég hef oft sagt að það séu fleiri klukkustundir í sólarhringnum hér en fyrir sunnan,“ segir hann.

„Við erum orðnir Siglfirðingar,“ segir Tryggvi.

Nýr heimur af tækifærum

Bræðurnir eru báðir stúdentar úr MTR, Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem þeir voru á náttúruvísindabraut. Tónlistin hefur fylgt drengjunum frá unga aldri.

„Frænka okkar Kristín, systir mömmu, gaf okkur gítar þegar við vorum þriggja ára gamlir. Þeir hafa verið fastir við okkur síðan. Við lærðum fyrst á selló en færðum okkur yfir á gítarinn,“ segir Tryggvi og segir þá hafa haldið áfram í tónlistinni eftir að þeir fluttu til Siglufjarðar.

„Við fórum í tónlistarskóla hér og vorum líka með útvarpsþátt þar sem við gátum spilað okkar tónlist. Hér opnaðist nýr heimur af tækifærum og hér eru frábærir tónlistarkennarar,“ segir Tryggvi.

„Við stofnuðum einmitt hljómsveit með tveimur kennurunum okkar og erum allir góðir vinir í dag. Hljómsveitin heitir Ástarpungarnir og við unnum Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2020. Þá vorum við reyndar bara fjórir í bandinu en síðan komu kennararnir inn í það,“ segir Júlíus.

„Við syngjum líka báðir þótt við höfum aldrei lært að syngja,“ segir Tryggvi.

„Við spilum mikið á böllum og í brúðkaupum og þá tökum við aðallega „cover“-lög,“ segir Júlíus.

Bræðurnir taka sig vel út á sviði.
Bræðurnir taka sig vel út á sviði.

„Við erum líka að vinna í stúdíóinu Flóka, og fáum annað slagið að fara þangað til þess að taka upp,“ segir Tryggvi og nefnir að það sé eitt flottasta stúdíó landsins.

Tónleikar í Bátahúsinu

Kvöldið sem blaðamaður átti leið um bæinn var hann svo heppinn að Ástarpungarnir voru einmitt með tónleika ásamt söngkonunni Eddu Björgu í Bátahúsi Síldarminjasafns Íslands.

„Hún hefur verið að syngja dálítið með okkur. Þessir tónleikar eru yfirleitt vel sóttir af Siglfirðingum,“ segir Tryggvi og bendir á að fólk geti hlustað á þá á Spotify.

Blaðamaður varð ekki fyrir vonbrigðum; kvöldstundin í Bátahúsinu með Eddu og Ástarpungunum var sannarlega skemmtileg og ljúf. Og Sigfirðingar fjölmenntu og fylltu húsið.

Ítarlegra viðtal er við Tryggva og Júlíus í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert