Áhyggjur skipuleggjenda tilefnislausar

Frá Sjómannadeginum á Granda í dag.
Frá Sjómannadeginum á Granda í dag. mbl.is/Óttar

„Dagurinn er heldur betur búinn að fara vel fram,“ segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, spurður hvernig Sjómannadagurinn hafi gengið í Reykjavík.

Í morgun fór fram árleg athöfn þar sem blómsveigur er lagður á leiði týnda sjómannsins í Fossvogskirkjugarði. 

„Landhelgisgæslan setti fallegan svip á athöfnina, að venju, með því að standa heiðursvörð,“ segir Aríel en viðstaddir athöfnina voru meðal annars Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Að athöfninni lokinni var svo guðsþjónusta í Dómkirkjunni.

„Höfuðborgarbúar hafa ekki látið það á sig fá“

Skemmtidagskráin hófst á Granda upp úr hádegi eftir skrúðgöngu frá Hörpu. Aríel segir skipuleggjendur hátíðarinnar hafa haft ákveðnar áhyggjur af dræmri mætingu í ár í samanburði við sjómannadaginn fyrir ári en þá var veðrið betra.

„Höfuðborgarbúar hafa ekki látið það á sig fá,“ segir Aríel en skipuleggjendur telja fleiri gesti hafa mætt á hátíðina í ár en í fyrra. Telja þeir að á bilinu 30.000 til 40.000 manns hafi komið við í dag. 

Hátíðargestir að byggja sína eigin báta á Granda í dag.
Hátíðargestir að byggja sína eigin báta á Granda í dag. mbl.is/Óttar

Á þriðja þúsund fóru í siglingu

Dagskrá Sjómannadagsins var fjölbreytt. Hátíðargestum bauðst að fara í siglingu á varðskipinu Freyju en Aríel segir að á þriðja þúsund manns hafi farið í siglingu. Fiskisúpa var á boðstólum í boði Brims og bauðst gestum að smíða sinn eigin bát. Auk þess var furðufiskasýning og andlitsmálning í boði fyrir gesti.

„Stemningunni var haldið uppi af öllum þeim frábæru tónlistarmönnum sem komu fram,“ segir Aríel en meðal tónlistarmanna voru Jón Jónsson, GDRN, Daniil og Gugusar.

Sameiginlegt átak gerir hátíðina öflugri

Aríel kveðst stoltur af sameiginlegu átaki Sjómannadagsráðs, Faxaflóahafna og Brims sem hefur gert Sjómannadaginn enn öflugri en áður fyrr.

Hann segir það mikilvægt að höfuðborgarsvæðið kynnist þeim spennandi tækifærum sem felast í sjávarútveginum. Hann segir í lokin að skipuleggjendur hlakki til að sjá alla á Sjómannadeginum að ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert