Auglýst eftir sextánda dómaranum

Dómurum við Landsrétt mun fjölga í ágúst.
Dómurum við Landsrétt mun fjölga í ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðuneytið auglýsir nú eftir sextánda dómaranum við Landsrétt, en nýverið samþykkti Alþingi frumvarp dómsmálaráðherra um að fjölga dómurum við réttinn úr fimmtán í sextán.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að fjölgun um einn landsréttardómara miði að því að unnt verði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn, en dómstólasýslan hafði kallað eftir því að dómurum við réttinn yrði fjölgað um að minnsta kosti einn svo að hægt yrði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn.

Einkamálin dragast

Í samtali við mbl.is segir Hervör Lilja Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, málshraðan viðunandi þegar kemur að sakamálum. Aftur á móti sé hann ekki viðunandi fyrir einkamál. 

„Hann er viðunandi varðandi sakamál en við erum að tala um meira en ár fyrir einkamál og það er of langur tími,“ segir Hervör.

Spurð hvort hún telji að hægt sé að grípa til annarra aðgerða til að bæta málshraðan segir Hervör:

„Ég get ekki séð það. Það eru dómarar sem dæma. Ég er ekki að sjá að eitthvað annað í starfseminni geti leyst þetta mál.“

Tekur til starfa í ágúst

Hervör telur að málshraðinn muni bætast þegar nýr dómari tekur til starfa. Aðspurð segir hún að tíminn muni leiða í ljós hvort fjölga þurfi dómurum enn frekar.

Í starfsauglýsingunni á Starfatorgi kemur fram að skipað verði í embættið frá og með 21. ágúst 2023.

mbl.is