Brunnu út og brugðu sér í heimsreisu

Unnstein og Halldóra í byrjun ferðarinnar.
Unnstein og Halldóra í byrjun ferðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Þegar hjónin Unnstein Logi Eggertsson og Halldóra Halldórsdóttir fundu að þau voru búin með allt vinnuþrek sumarið 2021 eftir að hafa gengið fram af sér bæði andlega og líkamlega við fyrirtækjarekstur sinn ákváðu þau að venda kvæði sínu í kross og fara í heimsreisu.

„Við vorum búin að helga okkur veitingarekstri og höfðum brunnið út. Við vildum gera þetta svo vel að við gerðum þetta of vel og gengum fram af okkur,“ segir Halldóra, spurð út í tilurð ferðalagsins.

Þurftu að núllstilla sig

Þau ráku veitingastaðinn Kaffi-Sel á Flúðum, golfvöllinn sem stendur þar við og gistiheimili en ákváðu á þessum tímapunkti að best væri fyrir þau að selja veitingastaðinn og golfvöllinn og drífa sig í langþráð sumarfrí, sem ekki hafði verið í boði í mörg ár.

Tími var kominn til að núllstilla sig og íhuga næstu skref í lífinu. Börnin þeirra þrjú voru uppkomin, en það yngsta er 18 ára, og eitt barnabarn var komið í heiminn. Þau vildu geta gefið sér tíma í framtíðinni fyrir ömmu- og afahlutverkin.

„Við vildum ekki bíða eftir því að verða 67 ára. Á meðan við áttuðum okkur á því hvað við vildum gera fannst okkur þetta réttu tímamótin til að fara hringinn í kringum jörðina,“ greinir Halldóra frá um reisuna miklu.

Í Angkor Thom í Kambódíu.
Í Angkor Thom í Kambódíu. Ljósmynd/Aðsend

Víetnam í uppáhaldi 

Hana hafði lengi langað að heimsækja Víetnam á meðan Unnsteinn var spenntastur fyrir Havaí. Einnig höfðu Maldíveyjar og Franska Pólýnesía borið á góma. Þau ákváðu að skipuleggja ferðina alveg sjálf, án aðstoðar ferðaskrifstofu, og treystu sömuleiðis á fría gistingu hjá vinafólki. Svo fór að í heimsreisunni, sem stóð yfir í rúma þrjá mánuði, gistu þau frítt í fimm til sex vikur, sem hlýtur að teljast vel af sér vikið.  

Einungis ferð þeirra til Víetnam og Kambódíu var skipulögð af ferðaskrifstofu, eftir að þau fengu ráðleggingar þess efnis, og reyndist hún eftirminnilegust þegar upp var staðið. „Þjóðfélagið, fólkið, sagan og þrautseigjan í þessu fólki. Þetta er mjög fallegt land líka. Þarna er líka mjög margt skrítið og skemmtilegt og umferðin, eins og í Norður-Víetnam, er ævintýraleg,“ segir Halldóra um Víetnam.

Fallegasta svæðið sem þau heimsóttu var aftur á móti Franska Pólýnesía og gott loftslagið á Havaí kom þeim sömuleiðis skemmtilega á óvart.

Á Maldíveyjum í góðum gír.
Á Maldíveyjum í góðum gír. Ljósmynd/Aðsend

Ólíkar áhafnir 

Á ferðum sínum höfðu þau hjón mjög gaman af því að kynnast mismunandi áhöfnum flugfélaga, þar á meðal í Víetnam þar sem flugfreyjurnar voru fallega klæddar og hneigðu sig. Í sama landi fengu þau einkaþjón sem var óvænt innifalið í uppfærslu sem þau borguðu fyrir. Flugfélagið á Nýja-Sjálandi bauð upp á stálhnífapör á meðan flugstöðin í Sydney í Ástralíu var sú besta af öllum. Kurteisin var þar í fyrirrúmi og enginn asi á neinum.

Spurð segjast þau klárlega mæla með svona ferðalagi við aðra og nefna að þau hafi hitt marga eldri borgara sem sögðu þau vera að ferðast á frábærum tíma þegar þau hefðu ennþá líkamsburði í svona langt ferðalag. Einnig hittu þau margt yngra fólk sem gat kannski ekki leyft sér eins mikið og þau vegna þess að það var að spara peninga.

„Það er þvílíkur lúxus að geta farið á þessum tímapunkti og á þessum aldri. Maður horfir líka á hlutina, menninguna og það sem er að gerast í kringum mann allt öðruvísi,” segir Halldóra, en þau hjón eru um fimmtugt. Gott hafi verið að fara út fyrir þægindarammann.

Halldóra og Unnsteinn.
Halldóra og Unnsteinn. Ljósmynd/Aðsend

Unnsteinn tekur þó fram að huga þurfi að mörgu í svona heimsreisu, meðal annars ýmsu í sambandi við vegabréfsáritanir, auk þess sem passa þurfi upp á að missa ekki af flugferðum. „Það þarf að hafa ótrúlega margt í huga ef dómínóið á ekki að hrynja,” greinir hann frá en tekur fram að sem betur fer hafi þau aldrei týnt neinu í ferðinni.

Vonbrigði í Las Vegas

Urðuð þið fyrir vonbrigðum með eitthvað land eða borg?

„Las Vegas,” svara þau bæði án þess að hika. 

Unnsteinn heldur áfram og segir það stað sem mann langi kannski að heimsækja einu sinni og í mjög stuttan tíma. Hann talar um eldri borgarana og öryrkjana sem stunduðu spilakassana og hversu einmana þetta fólk var. „Það var ákveðinn tómleiki og vonbrigði að horfa á þetta fólk dæla út öllu því litla sem það átti og fá ekkert í staðinn.”

Halldóra hjá Miklagljúfri í Arizona-ríki.
Halldóra hjá Miklagljúfri í Arizona-ríki. Ljósmynd/Aðsend

Brann eins og karfi

Spurð segjast þau hafa náð að slappa vel af í ferðinni inni á milli með því að fara í sólbað og nefnir Unnsteinn að fyrsta daginn á Maldíveyjum hafi hann keypt sólarvörn, 50 plús. „Ég fór út í sólina en á tveimur tímum brann ég alveg eins og karfi, eins og ekta Íslendingur,” segir hann og hlær. „Ég var fimm til sex daga að jafna mig á því.”

Þeim þótti afar notalegt að koma loksins heim til Íslands fyrir tæpum mánuði síðan eftir að hafa heimsótt 11 lönd, 15 stórborgir, fimm eyjar, fjórar heimsálfur og farið í 18 flugferðir.

Sjáið eftir peningunum sem fóru í heimsreisuna?

„Nei, ekki sjéns,“ segir Unnsteinn og bætir við að kostnaðaráætlunin sem þau settu í upphafi hafi staðist, sem sé „alveg frábært“.

100 blaðsíðna ljósmyndabók

Til að halda enn betur í minningarnar úr ferðalaginu eru þau búin að láta prenta fyrir sig 100 blaðsíðna ljósmyndabók sem gestir á heimili þeirra geta gripið í við tækifæri. Ásamt því ætla þau að setja vel valin myndbönd á netið. Nú þegar er hægt að lesa bloggfærslur þeirra úr ferðinni þar sem margar skemmtilegar lýsingar er að finna. 

Halldóra á Staupasteini í Boston.
Halldóra á Staupasteini í Boston. Ljósmynd/Aðsend

Halldóra, sem er menntaður leikskólakennari og uppalin á Flúðum, getur núna valið úr þremur störfum á leikskólum sem hún sótti um er hún kom heim. Á sama tíma er Unnsteinn að íhuga næstu skref. Þau eiga ennþá gistiheimilið á Flúðum en eru reyndar aftur byrjuð að reka Kaffi-Sel eftir að hafa verið beðin um að hlaupa í skarðið í millibilsástandi sem kom upp. Golfíþróttin verður samt ekki látin sitja á hakanum eins og hún hafði gert alltof lengi.

Með bandarísku fjölskyldunni sem þau kynntust.
Með bandarísku fjölskyldunni sem þau kynntust. Ljósmynd/Aðsend

Þau hjón segjast hafa kynnst fullt af skemmtilegu fólki í heimsreisunni og margir hafi talað um aðdáun sína á Íslandi og íslenskri tungu. Í sumar ætla þau einmitt að taka á móti vinalegri bandarískri fjölskyldu frá Boise, höfuðborg bandaríska ríkisins Idaho, sem þau kynntust á ferðalaginu og lýstu yfir mikilli aðdáun sinni á landi og þjóð. 

mbl.is