Ég tók of mikla áhættu

Óttar er allt í öllu á Borgarfirði eystri. Hann verkar …
Óttar er allt í öllu á Borgarfirði eystri. Hann verkar harðfisk, rekur veitingastað og er varðstjóri slökkviliðsins. Hann lenti í slæmu slysi fyrir sjö árum en hefur náð sér nánast að fullu. mbl.is/Ásdís

Á Borgarfirði eystri býr Óttar Már Kárason, ungur maður sem vinnur í Sporði, harðfiskvinnslu fjölskyldunnar. Hann er fjölskyldumaður, menntaður í bæði heimspeki og viðskiptum en valdi að snúa aftur í heimahagana og sér ekki eftir því.

Óttar lenti í slæmu slysi fyrir nokkrum árum þegar hann féll í björgum við eggjatínslu. Hann höfuðkúpubrotnaði, brotnaði á báðum úlnliðum og hlaut aðra áverka í andliti. Óttar er þakklátur að ekki fór verr.

10-15 metrar í frjálsu falli

Árið 2016 lenti Óttar í slysi þar sem hann og vinir hans voru að tína fýlsegg utarlega í Njarðvík rétt fyrir utan Bakkagerði.

„Ég hafði farið nokkur ár í röð og þetta á nú ekki að vera hættulegt sport. Ég hafði gaman af því að klifra og tók of mikla áhættu. Svo man ég ekki nákvæmlega hvað gerðist en mér hefur verið sagt ýmislegt síðan. Ég tók þarna heimskulega áhættu, en féll niður fimmtán til tuttugu metra. Ég lendi eftir tíu, fimmtán metra í frjálsu falli í býsna brattri brekku og enda nokkrum metrum neðar í fjörunni,“ segir Óttar og segir vini sína, Halldór Ármann, Birki og Huga, hafa strax tekið til sinna ráða. 

„Hugi sem var í góðu formi hljóp beint niður í fjöru og Birkir hljóp á næsta sveitabæ, Njarðvík. Þarna var ekkert símasamband, þó því hafi verið kippt í liðinn síðan,“ segir hann, en þess má geta að í frétt Austurfréttar segir að Birkir hafi aldrei hlaupið jafn hratt á ævinni, en hann vissi þá ekki hvort Óttar væri lífs eða liðinn.

„Hugi reyndi að hjúkra mér en ég var með meðvitund, þó ég muni ekkert eftir neinu. Halldór kom svo seinna og þeir reyna að veita mér fyrstu hjálp. Ég var svolítið lemstraður. Verstu meiðslin voru að ég braut báða úlnliði og annan mjög illa. Ég er enn dálítið fatlaður í honum.“

Óttar braut á sér báða úlnliði, höfuðkúpuna, bein í andliti …
Óttar braut á sér báða úlnliði, höfuðkúpuna, bein í andliti og auk þess skarst hann mikið í andliti.

Glæsilega gert hjá heimamönnum

Á sveitabænum var hringt beint í björgunarsveit og segir Óttar að fjölmennt lið hafi strax farið af stað.

„Það var farið á tveimur eða þremur bátum og einni eða tveimur trillum, en í annarri þeirra var pabbi. Heill haugur af fólki fór af stað og þetta var glæsilega gert hjá heimamönnum. Mér var svo komið upp á börur og um borð í björgunarsveitarbátinn þar sem var vel búið um mig,“ segir hann.

„Svo kom sjúkrabíll frá Egilsstöðum á sandinn í Njarðvík, en þangað var mér skutlað á bátnum. Það var farið með mig á Egilsstaði þar sem beið mín sjúkraflugvél sem flaug með mig suður,“ segir Óttar.

Óttar var fljótur á lappir og var kominn á EM …
Óttar var fljótur á lappir og var kominn á EM í fótbolta nokkrum vikum síðar.

„Ég var höfuðkúpubrotinn og með mörg brotin bein í andliti og skorinn, auk úlnliðsbrotanna. Lappirnar og bakið var heilt. Þetta hefði getað farið mun verr,“ segir hann og segist hafa farið í nokkrar aðgerðir á spítalanum en man lítið eftir þessum tíma.

„Ég man eftir að hafa verið þarna og mamma og pabbi og fleiri voru komnir suður. Það vantar nokkra daga í minnið,“ segir hann og segist ekki hafa verið mjög kvalinn.

„Það var víravirki á vinstri úlnlið en gips á hinum. Ég fór svo aðeins í endurhæfingu fyrir austan en læknarnir sögðu að best væri að nota höndina. Ég fór fljótlega að vinna í fiskverkun og það var besta endurhæfingin.“

Ítarlegt viðtal er við Óttar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: