Heyrði miklar sprengingar fyrir utan

Eldurinn við Engihjalla 17.
Eldurinn við Engihjalla 17. Ljósmynd/Aðsend

Hrafnhildur Gísladóttir, íbúi í Engihjalla 17, segir í samtali við mbl.is að henni hafi brugðið þegar eldur kviknaði í bíl á bílastæði blokkarinnar í nótt.

Einn var fluttur á slysadeild með reykeitrun og fimm bílar eyðilögðust.

„Ég heyrði svo miklar sprengingar fyrir utan,“ segir Hrafnhildur en hún var við það að sofna þegar eldurinn braust út. Í fyrstu hafi hún haldið að um flugelda væri að ræða en svo reyndist ekki þegar lögreglan bað íbúa að yfirgefa bygginguna vegna elds.

„Svo héldum við nágrannarnir bara utan um hvert annað umvafin teppi,“ segir Hrafnhildur og bætir við að íbúarnir hafi verið í góðum höndum hjá lögreglunni og slökkviliðinu.

Aðspurð segist Hrafnhildur hafa fundið fyrir ótta í fyrstu. „Maður var hræddur“ segir hún en svo hafi hún róast þegar íbúum var hleypt aftur heim til sín.

mbl.is