„Sérstaklega hættuleg“ líkamsárás framin í morgun

Árásin átti sér stað klukkan hálf sex í morgun.
Árásin átti sér stað klukkan hálf sex í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um „sérstaklega hættulega“ líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur í morgun. Tveir voru í kjölfarið handteknir og vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Sparkað í höfuð

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali mbl.is að árásin hafi átt sér stað í Austurstræti klukkan hálf sex í morgun. 

Segir Skúli þrjá menn hafa ráðist á tvo menn og að líklega hafi árásin þótt sérstaklega hættuleg vegna þess að sparkað var í höfuð annars árásarþola.

Árásarmennirnir sem voru handteknir eru sautján og átján ára. Barnavernd var tilkynnt um málið. 

mbl.is