„Ég er hætt að gráta í búðum"

Gestur Dagmála í dag kallar sig sorgarnörd, í glettnislegum tón. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir missti drenginn sinn í sjálfsvígi og hefur eftir þá þungbæru reynslu einbeitt sér að því að hjálpa fólki í sorg. Fyrir helgi gaf Bókafélagið út bókina Velkomin í Sorgarklúbbinn. Minningarsjóður um Orra hennar styrkti útgáfu bókarinnar og er hún eitt af mörgum verkefnum sem Guðrún Jóna hefur og sjóðurinn hefur komið að í þeirri viðleitni að auka fræðsluefni fyrir syrgjendur.

Þó að mörg ár séu liðin frá því að hún missti drenginn sinn er sorgin enn erfið í dag. Tíminn læknar ekki sár en hann hjálpar. Hún horfir á sorgina sem opið sár til að byrja með. Hrúður myndast, en ýmsar kveikjur rífa það upp. „Ég er hætt að gráta í búðum,“ segir hún. Í verslunum voru oft kveikjur sem minntu hana á hinn sára missi.

Guðrún Jóna var einn af stofnendum Sorgarmiðstöðvar og starfar við forvarnir gegn sjálfsvígum hjá embætti Landslæknis. Í Dagmálum dagsins ræðir hún um Sorgarklúbbinn sem enginn vill koma í en við flestum eigum þar viðkomu á lífsleiðinni.

Bókin er áhrifarík og ólík öllum öðrum bókum sem hún hefur lesið um þetta efni. Höfundur Velkomin í Sorgarklúbbinn spilar á allar tilfinningar en ekki síst húmorinn og svarar mörgum áleitnum spurningum.

Í brotinu úr þættinum ræðir Guðrún Jóna þau mikilvægu skilaboð að það er hægt að eiga gott líf þrátt fyrir þungbæran missi.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

Ef þú ert að upp­lifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, op­inn all­an sól­ar­hring­inn. Einnig er net­spjall Rauða kross­ins, 1717.is, opið all­an sól­ar­hring­inn. Píeta-sam­tök­in veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218. Á net­spjalli á Heilsu­vera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkr­un­ar­fræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert