Grunur á salmonellusmiti í kjúkling

Unnið er að innköllun kjúklings með mögulegt salmonellusmit.
Unnið er að innköllun kjúklings með mögulegt salmonellusmit. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Grunur leikur á salmonellusmiti í ferskum kjúklingi framleiddum af Matfugli ehf. Í ljósi þess hefur dreifing vörunnar verið stöðvuð og unnið er að innköllun hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu frá því í dag.

Frekari rannsókna er þörf til að staðfesta hið grunaða smit en þangað til er unnið að innköllun vörunnar. Um er að ræða kjúkling með rekjanleikanúmerinu 011-23-17-5-64 og 011-23-17-6-64. Biðlar fyrirtækið til neytenda sem keypt hafa kjúkling með því rekjanleikanúmeri að skila honum í viðkomandi verslun eða beint til Matfugls ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ. Er þá sérstaklega tekið fram að innköllunin á eingöngu við um kjúkling með þessum tilteknu rekjanleikanúmerum.

Til að varast óróleika hjá neytendum bendir fyrirtækið á að kjúklingur þessi er hættulaus fari neytendur eftir áprentuðum leiðbeiningum um eldun kjúklinga, sem finna má á umbúðum. Samkvæmt þeim eiga neytendur kjúklingsins að steikja hann í gegn og passa að blóðvökvi fari ekki í aðra matvöru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert