Nýir skólastjórar í Kópavogi

Brynjar Marinó Ólafsson, Guðný Sigurjónsdóttir og Margrét Ármann ráðin nýir …
Brynjar Marinó Ólafsson, Guðný Sigurjónsdóttir og Margrét Ármann ráðin nýir skólastjórar þriggja skóla í Kópavogi. Samsett mynd

Ráðnir hafa verið nýir skólastjórar í Snælandsskóla, Kópavogsskóla og Lindaskóla. Var Brynjar Marinó Ólafsson ráðinn í stöðuna í Snælandsskóla, Guðný Sigurjónsdóttir í Kópavogsskóla og Margrét Ármann í Lindaskóla.

Brynjar lauk B.Ed. gráðu sem grunnskólakennari með kjörsvið í stærðfræði og eðlisfræði árið 1999. Þá lauk hann M.Ed. gráðu í faggreinakennslu með kjörsvið í kennslu náttúrugreina og upplýsingatækni árið 2021. Hefur hann starfað við grunnskóla frá árinu 1999, að undanskildum þremur árum þar sem hann starfaði sem lögreglumaður í fullu starfi. Hefur hann einnig sinnt því starfi á sumrin og í hlutastarfi samhliða kennslu allt til ársins 2016. Brynjar hafði starfað í Hagaskóla, Álftamýrarskóla og Háaleitisskóla þegar hann tók við starfi aðstoðarskólastjóra Snælandsskóla árið 2019, en hefur hann gegnt því starfi til dagsins í dag.

Guðný lauk B.Ed. gráðu sem grunnskólakennari árið 2007 og M.Ed. gráðu í náms- og kennslufræðum með áherslu á stærðfræði árið 2015. Hún hefur starfað við grunnskóla frá árinu 2002 og allan tímann við Kópavogsskóla. Hefur hún á árunum 2016-2022 verið aðstoðarskólastjóri skólans en árið 2022 tók hún að sér að gegna stöðu skólastjóra tímabundið vegna afleysinga.

Margrét lauk B.Ed. gráðu sem grunnskólakennari árið 1989 og lagði stund á sálfræðinám í Bandaríkjunum eftir það. Þá lauk hún mastersgráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2018. Hefur hún starfað við Lindaskóla frá árinu 2002 og gegnt starfi aðstoðarskólastjóra frá árinu 2020 ásamt því að gegna stöðu deildarstjóra elsta stigs samhliða því. Er Margrét ráðin skólastjóri Lindaskóla næsta skólaár, tímabundið til eins árs þar til staðan verður auglýst að nýju.

mbl.is