Fötluðu barni neitað um skólavist

Dagbjartur lauk tíunda bekk Klettaskóla með glæsibrag í dag og …
Dagbjartur lauk tíunda bekk Klettaskóla með glæsibrag í dag og langar í framhaldsskóla. Honum er hins vegar settur stóllinn fyrir dyrnar þar sem íslenskar stofnanir sem ganga fyrir skattfé borgaranna eru þrándur í götu. Ljósmynd/Facebook

„Við foreldrarnir fengum bréf frá Menntamálastofnun þar sem okkur var tjáð að enginn framhaldsskóli gæti tekið við Dagbjarti eins og er,“ segir Gyða Sigríður Björnsdóttir í samtali við mbl.is. Gyða er móðir Dagbjarts Sigurðar Ólafssonar, sextán ára gamals pilts sem var að ljúka við 10. bekk í Klettaskóla þar sem hagur hans blómstraði sem mest mátti vera.

Dagbjartur er haldinn því sem heitir „fragile X syndrome“ eða heilkenni brotgjarns X og stendur X þar fyrir X-litning erfðakeðjunnar. Þetta heilkenni er þrándur í götu Dagbjarts og hefur í för með sér alvarlega þroskahömlun og einhverfu. Dagbjartur þarf sem sagt aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Sótti um tvo skóla

Gyða móðir hans ber Klettaskóla vel söguna. „Þetta er mjög fjölbreyttur hópur með misjafnar þarfir auðvitað, það eru tveir grunnskólar sem bjóða upp á þessa þjónustu á landinu og Klettaskóli hefur reynst honum frábærlega vel. Þess vegna var það áfall að fá þetta bréf frá Menntamálastofnun,“ segir móðirin.

Dagbjartur sótti um tvo framhaldsskóla, Fjölbrautaskólann í Ármúla, þar sem Gyða telur hag hans best borgið, og Borgarholtsskóla. „Öll börn eiga rétt á að komast í framhaldsskóla og við sóttum um þessa tvo skóla. Svo fáum við þetta bréf í apríl þar sem segir að ekki sé víst að hægt sé að tryggja honum skólavist í þeim skólum sem sótt var um en verið sé að vinna í málinu.

Gyða og Ólafur eru stolt af námsárangri sonarins. En kemst …
Gyða og Ólafur eru stolt af námsárangri sonarins. En kemst hann í framhaldsskóla? Vituð ér enn eða hvat? Ljósmynd/Facebook


Ég spurði mig bara hvernig ég ætti að skilja þetta bréf. Svo skrifa ég Menntamálastofnun og fæ þá símtal frá starfsmanni þar og þá kemst það á hreint að hann fékk bara höfnun í skólunum en verið sé að bíða eftir svörum frá menntamálaráðuneytinu um aukið fjármagn til að fjölga plássum eða skapa ný úrræði,“ heldur Gyða áfram.

Ærandi þögn stofnana

Þau svör áttu að berast áður en skólum lyki í vor, að sögn Gyðu. Dagbjartur útskrifaðist hins vegar úr tíunda bekk í dag og enn þegja Menntamálastofnun og ráðuneytið þunnu hljóði.

Dagbjartur hefur mjög miklar sérþarfir og skólasystkini hans í Klettaskóla eru misjafnlega stödd upp á daglega getu til að sjá um sig sjálf. „Sum þurfa mikinn tækjabúnað og mikla aðstoð, aðrir eru betur staddir,“ segir Gyða sem kveður þau hjónin hafa þurft að aðlaga líf sitt þeirri staðreynd að drengurinn þeirra þurfi aðstoð við allt.

„Við höfum fengið mjög góða þjónustu í Klettaskóla, hann fór strax í greiningu á öðru ári og við höfum fengið mjög góða aðstoð frá Ráðgjafar- og greiningarstöð í gegnum tíðina. Hann var mjög ánægður í skólanum en Dagbjartur tjáir ekki neinn sérstakan vilja sjálfur um áherslur í framhaldsnámi, annan en að hann þarf að hafa nóg fyrir stafni. En hann þarf að vera í einhverju umhverfi sem örvar hann.

Hann þarf tækifæri til að læra og þroskast á sínum eigin forsendum, hann sýnir miklar framfarir þegar hann fær þá örvun sem hann þarf, annars er hætt við að hann staðni í þroska. Hann fékk tjáskiptatölvu sem hjálpaði mikið, með henni getur hann notað myndir til að tjá sig og þá segir tölvan setningarnar fyrir hann,“ segir Gyða og er þakklát fyrir það sem Dagbjartur hefur nú þegar fengið.

Á sama stað ævilangt?

Betur má þó ef duga skal. „Hann hefur fengið tækifæri til að halda áfram, en fengi hann ekki þessa örvun gæti hann bara verið staddur á sama stað í lífinu ævilangt,“ segir Gyða Sigríður Björnsdóttir, móðir Dagbjarts Sigurðar Ólafssonar, fatlaðs drengs sem bíður eftir framhaldsskólaplássi til að tryggja sér áframhaldandi framfarir í lífinu. Þær framfarir eru núna strand hjá Menntamálastofnun, opinberu embætti sem ætti samkvæmt hlutverki sínu innan fjárlaga að tryggja öllum Íslendingum, háum sem lágum, trygga vist í framhaldsskóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina