Fundurinn skilaði engu

Við upphaf fundarins í morgun.
Við upphaf fundarins í morgun. mbl.is/Arnþór

Sonja Ýr, formaður BSRB, segir deiluaðila vera fjær hvor öðrum eftir fundinn sem var að klárast í Karphúsinu um hádegi. Inga Rún Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar Sambands íslenskra sveitarfélaga, deilir þeirri skoðun ekki.

Sonja Ýr segir deiluaðila enn ósammála um grundvallaratriði. Var hægt að brúa bilið? „Nei það er ekki hægt að segja það. Þessi fundur var eiginlega þess eðlis að við erum fjær hvor öðrum en áður.“ Hún telur að erfitt sé að sjá fyrir um það hvort að verkföll standi yfir út vikuna en segir að með samningsvilja geti þetta klárast hratt. „Við erum bara í grundvallaratriðum ósammála,“ segir Sonja

Ekki sammála Sonju

Blaðamaður spurði Ingu Rún hvort að hún væri sammála fullyrðingu Sonju um að deiluaðilar stæðu fjær hvor öðrum eftir þennan fund en fyrir: „Nei mér finnst það ekki vera staðan. Við erum í raun bara á sama stað og eftir síðasta fund.“ Hún segir hætt við því að verkföll muni standa yfir út vikuna en bætir þó við: „Auðvitað vonar maður að nýjar hugmyndir kvikni.“ 

Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjari segir að ekkert hafi áunnist á fundinum sem var að klárast og að þau séu á sama stað og á síðasta fundi sem kláraðist aðfaranótt síðasta mánudags. Ekki var boðað til nýs fundar en hún verður áfram í virku sambandi við deiluaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert