Munu senda fernurnar til Svíþjóðar

Smurfit Kappa staðfesti við Sorpu að fern­ur sem flokkaðar hafa …
Smurfit Kappa staðfesti við Sorpu að fern­ur sem flokkaðar hafa verið með papp­ír séu ekki end­urunn­ar held­ur end­ur­nýtt­ar í orku­vinnslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefnt er að því að fernur frá Tetra Pak verði sendar til fyrirtækisins Fiskeby Board í Svíþjóð til að tryggja að endurvinnsla fari fram með réttum hætti og skili þeim árangri sem til er ætlast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Úrvinnslusjóð og Sorpu.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa umbúðir frá Tetra Pak ekki verið endurunnar með þeim hætti sem þeir eru sagðar vera hér á landi en Heimildin greindi frá því að líklega væru þær sendar til sementsverksmiðju í Evrópu þar sem þær eru síðan brenndar. 

Ætla tryggja viðunandi árangur

„Úrvinnslusjóður og SORPA ætla í sameiningu að fá fullvissu fyrir því að sá endurvinnsluaðili sem mun héðan í frá taka við fernum frá SORPU skili þeim árangri sem til er ætlast,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að þessi ákvörðun sé tekin í kjölfar þess að í ljós kom að Smurfit Kappa, endurvinnsluaðili á pappír hjá Sorpu, geti ekki endurunnið fernur í sínum vinnsluferlum. 

Funduðu með Guðlaugi Þór

Úrvinnslusjóður og Sorpa funduðu með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, í dag. Ákveðið var í kjölfar fundarins að Úrvinnslusjóður og Sorpa tilnefni óháðan aðila til að fylgjast með framkvæmdinni og staðfesta fullnægjandi endurvinnslu.

„Úrvinnslusjóður hefur krafið aðra þjónustuaðila, Terra og Íslenska gámafélagið, sem hafa safnað fernum til endurvinnslu, um staðfestingu á því að fullnægjandi endurvinnsla hafi farið fram erlendis. Gert er ráð fyrir að upplýsingar berist á næstu dögum.“

Jafnframt tekur Úrvinnslusjóður fram að hann hafi nýlega endurskoðað  skilmála gagnvart þjónustuaðilum sjóðsins með það fyrir stafni að tryggja rekjanleika og vitneskju endanlega ráðstöfun þess úrgangs sem fellur undir sjóðinn. 

mbl.is