Níu þúsund börn búa við fátækt

Fátækt barna ætti að vera sérstakt viðfangsefni enda má ætla …
Fátækt barna ætti að vera sérstakt viðfangsefni enda má ætla að um 9.000 börn hafi talist undir lágtekjumörkum árið 2020. mbl.is/Arnþór Birkisson

Alls reiknast 47.795 einstaklingar undir lágtekjumörkum á Íslandi eftir að tekið er tillit til húsnæðisstuðnings og barnabóta.

Einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur standa verst þegar kemur að fátækt og ætti fátækt barna að vera sérstakt viðfangsefni enda má áætla að um 9.000 börn hafi talist undir lágtekjumörkum árið 2020.

Þetta kemur fram í skýrslunni Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður, sem unnin var fyrir forsætisráðherra.

Í skýrslunni segir að staðan á Íslandi sé með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda en það breyti því þó ekki að fátækt sé til staðar í íslensku samfélagi. Hlutfall tekjulágra hefur lækkað um tæp tvö prósentustig á tímabilinu 2000 til 2020, eða úr 15,3% í 13,5%.

Átta milljónir til frekari rannsókna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að veita 8 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til frekari rannsókna á fátækt á Íslandi. Mun hópur fræðimanna vinna með sérfræðingum Stjórnarráðsins að því að vinna úr gögnum um fátækt og skila forsætisráðherra samantekt um stöðumat og valkosti á 3-4 mánaða fresti, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Í skýrslunni segir að langtímafjárfesting felist í því að draga úr fátækt sem hafi mikinn væntan ávinning.

Fjárfesting í aðgerðum gegn fátækt barna sé augljóslega með mesta ávinninginn og ætti því að vera forgangsverkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert