Sendi eiginmanni myndbrot af kynferðismökum eiginkonu

Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi þar sem þrír …
Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi þar sem þrír mánuðir eru skilorðsbundnir. Ómar Óskarsson

Karlmaður var dæmdur í sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir hótanir, brot í nánu sambandi, brot gegn kynferðislegri friðhelgi og blygðunarsemisbrot gagnvart fyrrverandi kærustu. Þrír mánuðir eru skilorðsbundnir. 

Maðurinn játaði skýlaust háttsemi að hluta en ákæran var í fimm liðum og játaði hann þrjá þeirra.

Hótanir og myndsendingar 

Játaði hann að hafa án samþykkis konunnar sent eiginmanni hennar myndskeið af sér og henni að stunda kynlíf. Að hafa hótað því að dreifa myndskeiðum af kynferðislegri háttsemi konunnar án hennar samþykkis. Þá hafi hann hótað henni með hljóðskilaboðum þar sem hann hótaði m.a. að eyðileggja líf hennar og eigur.

Hann hafnaði hins vegar að hafa tekið upp myndskeið af samræði og öðrum kynferðismökum án hennar vitundar á árunum 2019-2020.

Jafnframt neitaði hann að hafa veist að konunni á heimili sínu, klipið hana í kynfærasvæði, tekið um höfuð hennar og í tvígang slegið því í gluggakistu áður en hann sló hana í báðar rasskinnar. Féll ákæruvaldið frá þeim ákærulið.

Hótanir til að valda ótta 

Í niðurstöðu dómsins segir „að líta (verði) til þess að brot ákærða voru alvarleg og fólu annars vegar í sér grófa röskun á friðhelgi einkalífs brotaþola, sem var ákærða nákomin,með því taka upp og senda eða hótað að senda viðkvæmt myndefni af brotaþola og hins vegar með þeim alvarlegu hótunum sem beindust að brotaþola sem voru til þess fallnar að valda henni ótta um líf, heilbrigði eða velferð hennar eða annarra.“

Var maðurinn því dæmdur í sex mánaða fangelsi þar sem þrír mánuðir eru skilorðsbundnir. Að auki var honum gert að greiða samtals rúmlega 900 þúsund krónur í málskostnað og til réttargæslumanns.

mbl.is