Söluhæsta bók Íslandssögunnar „kemur eflaust á óvart“

Örn Sigurðsson, ritstjóri kortagerðar hjá Forlaginu.
Örn Sigurðsson, ritstjóri kortagerðar hjá Forlaginu.

Kortabók sem kom út fyrir 25 árum er mest selda bók Íslandssögunnar þegar horft er til bóka sem eingöngu hafa komið út á íslensku. Að sögn Arnars Sigurðssonar ritstjóra kortaútgáfu hjá Forlaginu kemur þetta eflaust einhverjum á óvart en bókin hafi haldið dampi alveg frá fyrstu útgáfu hennar. Í heild hafa 120 þúsund eintök verið seld. 

Að sögn hans hefur sprenging orðið í sölu íslenskra landakorta eftir að ferðamannastraumurinn fór að berast til landsins á ný. Kortin nýtast helst þeim sem eiga erindi þangað sem símasambands nýtur ekki. 

Ekki alltaf hægt að treysta á tækin

Örn segir útlit fyrir að kortasalan verði um 20 þúsund kort í ár. „Menn hafa leiðsögubúnað í bílunum og þurfa ekki á kortum að halda undir stýri öllum stundum. En þeir sem eru að fara á t.d. á Lónsöræfi, Þórsmörk og á Hornstrandir verða að hafa landakortið. Þar verða menn líka fljótlega straumlausir og geta ekki treyst á símtæki eða önnur tæki,“ segir Örn. 

Þá segir hann sumum ekki duga að þekkja hvaða leið þeir eiga að fara. Þeir vilji líka geta litið í kringum sig og þekkt t.a.m. fjöllin sem við blasa. 

Góð sala í Þýskalandi 

Örn segir að stór hluti kortasölunnar fari fram í gegnum erlenda dreifingaraðila sem selja kortin í verslunum, mestmegnis í Þýskalandi og á meginlandi Evrópu. „Gamla góða ferðakortið selst alltaf nokkuð vel og fólk sem kaupir það er oft á leið til landsins og vill undirbúa sig vel,“ segir Örn. Hann segir að hefðbundið verð á korti sé á um 2000 krónur.

Kortabók Máls og menningar er að sögn Arnar mest selda …
Kortabók Máls og menningar er að sögn Arnar mest selda bók Íslandssögunnar.

Hefur selst í 120 þúsund eintökum 

Kortaútgáfa hófst hjá Máli og menningu fyrir 25 árum þó Forlagið sé nú með umsjón með útgáfunni. Árið 2000 kom út Kortabók Máls og menningar og hefur hún selst í 120.000 eintökum og er mest selda bók Íslandssögunnar að sögn Arnar. „Þetta kemur eflaust einhverjum á óvart en hún hefur haldið dampi. Seldist í einhverjum 12 þúsund eintökum fyrsta árið og svo hefur hún alltaf selst síðan,“ segir Örn.

Til áréttingar hafa þýddar bækur selst í fleiri eintökum.  

Hann segir að kortatitlum hafi fjölgað smátt og smátt með árunum. Í upphafi voru gefnir út fimm kortatitlar en þeir eru nú orðnir 75. Eru það t.a.m. landsvæðakort, ferðakort, fjórðungskort og fuglakort svo dæmi séu nefnd.  „Kortin eru svona frænkur bókarinnar og sumir vilja hafa þetta áþreifanlegt fyrir framan sig alveg eins og með bækurnar,“ segir Örn.  

Hér má sjá, Sérkort, Atlaskort og Íslandskort sem eru þrír …
Hér má sjá, Sérkort, Atlaskort og Íslandskort sem eru þrír af þeim kortatitlum sem gefnir eru út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert