Sorpa biðst afsökunar

Endurvinnsluaðili Sorpu, hollenska fyrirtækið Smurfit Kappa, hefur staðfest við Sorpu …
Endurvinnsluaðili Sorpu, hollenska fyrirtækið Smurfit Kappa, hefur staðfest við Sorpu að fernurnar séu ekki endurunnar heldur endurnýttar í orkuvinnslu þ.e. brennslu. Eggert Jóhannesson

Sorpa biðst afsökunar á sínum þætti í að hafa ekki miðlað með skýrari hætti hver afdrif drykkjarferna, sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu flokka, eru. Ekki hefur náðst árangur við að endurvinna fernurnar en Sorpa biðlar til almennings að halda áfram að flokka fernur. 

Í tilkynningu frá Sorpu segir að Sorpa hafi fengið það staðfest hjá endurvinnsluaðila sínum í Hollandi, Smurfit Kappa, að fernur sem flokkaðar hafa verið með pappír séu ekki endurunnar heldur endurnýttar í orkuvinnslu.

Sorpa ítrekar hins vegar að þrátt fyrir þetta nái þau um 92% árangri í endurvinnslu á pappír.

Fernurnar rýra endurvinnslu pappa

Smurfit Kappa hefur tekið á móti endurvinnanlegum pappírsfernum frá Sorpu síðan á miðju síðasta ári, en í tilkynningu Sorpu segir að engum árangri hafi verið náð í endurvinnslu á fernunum.

Samkvæmt Smurfit Kappa rýra fernurnar endurvinnslu þess pappírs sem flokkaður er með fernunum og því mikilvægt að ná þeim úr pappírsstraumnum. Þær fara því allar í endurnýtingarfarveg, það er í brennslu til orkuframleiðslu. 

Árlegur kostnaður 75 milljónir 

Í tilkynningu Sorpu segir að framkvæmdastjóra hafi verið falið það verkefni að gera endurbætur á ferlinu og senda pappírinn í flokkun hjá Stena Recycling í Svíþjóð. Þar verði Tetra Pak umbúðirnar flokkaðar frá öðrum pappír og pappa frá Sorpu og komið í betri farveg en nú er. Gert er ráð fyrir árlegum kostnaði upp á 75 milljónir króna.

Sorpa biðlar til almennings að halda endurvinnslu áfram að óbreyttu, og flokka fernurnar með öðrum pappír, annars verði þær urðaðar á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi.

Einnig hvetur Sorpa framleiðendur til að vanda val sitt á umbúðum og forðast samsettar umbúðir sem erfitt er að endurvinna, ásamt því að endurskoða upplýsingar um endurvinnslumöguleika á umbúðunum.

mbl.is