Þurfa ekki að hafa áhyggjur af snjókomu í Þykkvabæ

Kort Veðurstofunnar sendir Þykkvabæingum kaldar kveðjur.
Kort Veðurstofunnar sendir Þykkvabæingum kaldar kveðjur. Skjáskot/Vedur.is

Veðurkort Veðurstofunnar sýnir 10 stiga hita og rigningu á Hellu á fimmtudaginn en snjókomu í Þykkvabæ á sama tíma. Veðurfræðingur segir óþarfi að hafa áhyggjur.

Sunnanátt er spáð á fimmtudaginn á Suðurlandi, milt verður í veðri og rigning víðast hvar. Þykkvibær sker sig þar úr á veðurkorti Veðurstofunnar þar sem snjókomu er spáð á sama tíma.

„Það koma stundum skrítnar meldingar þarna en þetta er það milt loft að það verður rigning og milt veður eins og hitatölur sýna,“ segir veðurfræðingur á vakt í samtali við mbl.is.

Hann segir að í sunnanáttinni á Suðurlandinu sé mikið til sama hitastig.

„Þetta er bara eitthvað tölvugrín. Ætli það verði nokkuð snjókoma fyrr en seint í haust.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert