Andlát: Árni Johnsen, fv. alþingismaður

Árni Johnsen, blaðamaður og fv. alþingismaður.
Árni Johnsen, blaðamaður og fv. alþingismaður.

Árni Johnsen, blaðamaður og fv. alþingismaður, lést í gær á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, 79 ára að aldri.

Árni fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944. Foreldrar hans voru Poul C. Kanélas frá Detroit í Bandaríkjunum og Ingibjörg Á. Johnsen kaupkona. Hún giftist síðar Bjarnhéðni Elíassyni, skipstjóra og útgerðarmanni í Vestmannaeyjum.

Árni ólst upp í Eyjum og gekk þar hefðbundna skólagöngu. Hann var kennari í Eyjum 1964 til 1965 og í Reykjavík veturinn 1966-1967 eftir að hafa tekið próf frá Kennaraháskóla Íslands 1966.

Árni var starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu um langt árabil, eða frá 1967 til 1991. Þá vann hann að dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið og Sjónvarpið.

Árni (til hægri) og ljósmyndarinn Ragnar Axelsson reru eintrjánungi frá …
Árni (til hægri) og ljósmyndarinn Ragnar Axelsson reru eintrjánungi frá Sertung-eyju út í Anak Krakatá og aftur til baka árið 1990.

Árni var fyrst kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi 1983. Hann var varaþingmaður á árunum 1988-1991 en náði aftur kjöri 1991 og sat til 2001. Hann fór aftur á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi 2007 en hætti þingmennsku 2013.

Árni átti sæti í fjölmörgum þingnefndum, m.a. fjárlaganefnd, menntamálanefnd og samgöngunefnd, þar sem hann gegndi formennsku um skeið. Hann var formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins 1994-2001 og 2007-2013, þar af formaður 1996-2001. Hann vann að margs konar félagsmálum í Vestmannaeyjum og víðar, var formaður tóbaksvarnarnefndar, í stjórn Grænlandssjóðs, í Vestnorræna þingmannaráðinu og sat í flugráði í 14 ár.

Árni Johnsen á Alþingi árið 2010.
Árni Johnsen á Alþingi árið 2010. mbl.is/Ómar

Auk skrifa í Morgunblaðið ritaði Árni nokkrar viðtalsbækur, safnaði gamansögum og vísum frá þingmönnum og gaf þær út í nokkrum bókum. Hann samdi tónlist, spilaði eigin lög og annarra inn á hljómplötu og stjórnaði brekkusöng á Þjóðhátíðinni í Eyjum til margra ára, með gítarinn við hönd.

Árni leiddi þjóðhátíðargesti í þjóðsönginn við lok brekkusöngsins árið 2019.
Árni leiddi þjóðhátíðargesti í þjóðsönginn við lok brekkusöngsins árið 2019. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Eftirlifandi eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir. Þau eignuðust soninn Breka en fyrir átti Árni tvær dætur með fyrri eiginkonu, Margréti Oddsdóttur, þær Helgu Brá og Þórunni Dögg.

Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Árna fyrir langt og farsælt samstarf fyrr á tíð og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Árni stýrði fjöldasöng þegar 3.800 fjár var smalað í Hrunarétt …
Árni stýrði fjöldasöng þegar 3.800 fjár var smalað í Hrunarétt árið 2016. Ljósmynd/Sigurður Sigmundsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka