Bjarni: „Spyrjum að leikslokum“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir sanngirnismál að makrílkvótamál lendi …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir sanngirnismál að makrílkvótamál lendi ekki á almennum skattgreiðendum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í sínum huga réttlætismál að ef reikningur falli á ríkið vegna makrílkvótamálsins verði hann ekki sendur á almenna skattgreiðendur í landinu.

Hann segir eðlilegt næsta skref vera að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar enda hafi ríkið boðað að tekið verði til varna af fullum þunga í málinu.

Þetta segir Bjarni í færslu á samfélagsmiðlum fyrir skömmu. Hann segir sanngirnismál að veiðarnar sjálfar muni á endanum standa undir slíkum reikningi, með einum eða öðrum hætti enda hafi allur hagnaður af makrílveiðum orðið eftir í greininni sjálfri en ekki hjá ríkissjóði. „Spyrjum að leikslokum,“ voru lokaorð færslu Bjarna.

Dæmt til greiðslu milljarða króna skaðabóta

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi íslenska ríkið til greiðslu hátt í tveggja millj­arða króna skaðabóta í tveim­ur mál­um sem Hug­inn VE-55 og Vinnslu­stöðin í Vest­manna­eyj­um ráku vegna tjóns, sem út­gerðirn­ar urðu fyr­ir við út­gáfu mak­ríl­kvóta á liðnum ára­tug.

Upp­haf­lega stefndu sjö út­gerðarfé­lög rík­inu árið 2019 til greiðslu skaðabóta alls að upp­hæð um 10,2 millj­arða króna. Fimm fé­lag­anna féllu frá mála­rekstri á fyrri stig­um, en þar áttu í hlut fé­lög­in Eskja, Gjög­ur, Ísfé­lag Vest­manna­eyja, Loðnu­vinnsl­an og Skinn­ey-Þinga­nes. Hug­inn og Vinnslu­stöðin héldu mál­un­um hins veg­ar til streitu.

Ríkið hafnaði ekki alfarið sátt

Bjarni segir í færslu sinni rangt að ríkið hafi alfarið hafnað sátt í málinu líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum. Segir hann forsendu fyrir möguleikanum á sátt af hálfu ríkisins hafi verið að eingöngu væri horft til sölutaps útgerðar en ekki vinnslu eða sölukeðjunnar erlendis.

mbl.is