Búið á tanknum eftir vaxtarskeið

Vegan búðin er komin með nýjan eiganda.
Vegan búðin er komin með nýjan eiganda.

Eigendaskipti urðu í Veganbúðinni í lok síðustu viku. Við rekstrinum tók eigandi Vegan Junk ehf, Daniel Ivanovici. Fráfarandi eigandi segir að fyrri eigendahópurinn hafi verið búinn með allt á tanknum og hann hefur mikla trú á nýjum eiganda. 

Erfitt rekstarumhverfi 

Magnús Reyr Agnarsson, einn fjögurra fyrrum eiganda Veganbúðirinnar segir að reksturinn hafi verið þungur undanfarin misseri, en samhliða hafi verið komin þreyta í eigendahópinn sem lagt hafði líf og sál í reksturinn frá árinu 2017. Í upphafi var þetta lítil netverslun en svo opnaði Veganbúðin, stærsta veganverslun í heimi, í miðju samkomubanni árið 2020.

Aðrir eigendur voru Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, Rósa María Hansen og Benjamin Lestage. 

„Rekstarumhverfið á Íslandi er almennt erfitt fyrir fyrirtæki. Uppbyggingin á félaginu er búin að vera hröð og mikil stækkun en af sama skapi vorum við búin með það sem var á tanknum,“ segir Magnús.

Vegan fæði nýtur símeiri vinsælda.
Vegan fæði nýtur símeiri vinsælda. www.edibleperspective.com

„Að byggja upp fyrirtæki á miklum hraða í Covid er ótrúlega furðulegt ævintýri. Þetta er búið að taka gríðarlega á og við erum búin að leggja allt í þetta,“ bætir Magnús við.

Gott fólk á bakvið nýja eigandann

Hann segir að vel hafi gengið að finna kaupanda. „Það kom þarna aðili sem sá í hvað stefndi og Vegan búðin er það mikilvæg fyrir samfélagið á Íslandi að þetta mátti ekki deyja. Nýi eigandinn er með gott fólk á bakvið sig og ég hef fulla trú á honum," segir Magnús.

Vaxtastigið segir sitt 

Hann segir vöxtinn hafa verið mikinn og Vegankakan sé sífellt að stækka í matarkörfunni. Segir Magnús af samskiptum sýnum við erlenda aðila að menn finni fyrir auknum kostnaði.

„Ef maður talar við fólk í Svíþjóð og í Bretlandi þá heyrir maður að fólk á nóg með að borga rafmagnsreikninginn. Ég held að sama skapi með þessu hækkandi vaxtastigi á Íslandi þá er fólk virikilega að hugsa um það í hvað að er að eyða,“ segir Magnús.

Fólk leyfir sér minna 

Hann segir að í Veganbúðinni hafi bæði verið í boði að kaupa ódýra hvers dags vöru og gæða vöru. „Fólk leyfir sér kannski ekki eins mikið að fara í þessa dýrari kosti,“ segir Magnús. 

Hann segir að orðspor verslunarinnar hafa farið út fyrir landsteinana.

„Þessi verslun hefur vakið gríðarlega athygli þar sem þetta er stærsta veganverslun í heimi. Stór hluti viðskiptavina okkar eru erlendir ferðamenn. Fólk sem veit af versluninni og kemur beint frá Keflavík og fyllir bílinn af einhverju dóti áður en það fer um landið,“ segir Magnús.

mbl.is