Endurskoða að höfða mál gegn Snæfellsbæ

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB,
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langt er í land í samningaviðræðum BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og hefur nýr fundur ekki verið boðaður frá því að deiluaðilar gengu frá samningaborðinu í Karphúsinu í gær.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir segir sáttasemjara meta stöðuna að hverju sinni og að þeir muni boða nýjan fund skynji þeir breytta afstöðu meðal samningaaðila. BSRB og SNS hafi þó bæði verið skýr í afstöðu sinni á fundinum í gær og er langt þeirra á milli.

„Við höfum ekki heimild til þess að ganga frá kjarasamningi nema að það sé verið að tryggja að fólk sé með sömu laun fyrir sömu störf og sambandið hefur hafnað þeirri kröfu,“ segir Sonja Ýr.

Snæfellsbær hafi látið af brotunum

Yfir helgina var greint frá því að BSRB ætlaði að stefna Snæfellsbæ fyrir Félagsdóm vegna meintra verkfallsbrota í leikskólum, en að sögn Sonju er félagið nú að endurskoða þá ákvörðun. 

„Stefnan var í undirbúningi en þau raunverulega létu af brotunum á mánudaginn þannig að þá er þetta aftur til skoðunar hjá okkur. Við vildum þá meta stöðuna aðeins áfram. Það er mjög mikilvægt að þau skyldu bregðast rétt við.“

Margt til skoðunar

Spurð hvort fleiri verkfallsbrot hafi verið tilkynnt til bandalagsins, sagði Sonja margt hafa komið upp sem sé til frekari skoðunar.

„Okkar fólk hefur verið að gera ábendingar víða. Sums staðar er þetta misskilningur en stundum þarf að fylgja þessu betur eftir.“

Hún segir flest atvikin sem séu til skoðunar vera á landsbyggðinni.

„Af því að þau voru að koma svo mörg ný inn sveitarfélögin þar – í þessari lotu, á fjórðu viku. Það eru ekki margir sem hafa þekkingu og reynslu af verkföllum enda hefur okkar fólk ekki lagt niður störf síðan 1984.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert