Mannréttindi eins skerði ekki mannréttindi annars

Orri ræddi mannréttindi.
Orri ræddi mannréttindi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mannréttindabarátta er barátta fyrir betra, fallegra og frjálsara samfélagi. Tryggari mannréttindi eins skerða ekki mannréttindi annars,“ sagði Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna, í eld­hús­dagsum­ræðum á Alþingi í kvöld. 

Ræddi Orri mikilvægi mannréttindabaráttu og benti á ýmis skref sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur tekið í þeim efnum.

„Við gleðjumst yfir því sem hefur áunnist en á sama tíma megum við aldrei taka áunnum sigrum í mannréttindabaráttu sem gefnum hlut, við verðum að halda vöku okkar og standa saman,“ sagði Orri.

Fjölbreytt samfélag er betra samfélag.

Þá ræddi Orri málefni fólks af erlendum uppruna. Telur hann þennan hóp ekki hafa greiðan aðgang að íslenskum stjórnmálum. 

„Þegar ég horfi yfir þennan sal sé ég ekki þverskurð þjóðarinnar - því miður. Fólk af erlendum uppruna og fólk sem leitar hér skjóls auðgar samfélagið með nýjum áherslum og fjölbreyttri menningu. Hefur þessi hópur greiðan aðgang að umræðunni, ákvarðanatöku og þátttöku í stjórnmálum – jafnvel samfélaginu sjálfu? Svarið blasir við.

Við þurfum öll að gera betur því við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem velja að búa hér. Byrjum núna í okkar nærumhverfi: í foreldrastarfi, kórum, félagasamtökum og innan okkar stjórnmálahreyfinga. Fjölbreytt samfélag er betra samfélag,“ sagði Orri.

mbl.is

Bloggað um fréttina