Rosalega mörgum þykir vænt um húsið

Margrét og Þorvaldur í hátíðarsal Háskólabíós.
Margrét og Þorvaldur í hátíðarsal Háskólabíós. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þau tíðindi bárust fyrr í vikunni að rekstur kvikmyndahúss Háskólabíós myndi líða undir lok í sumar, 62 árum eftir að hann hófst árið 1961 með biblíukvikmyndinni Fiskimaðurinn frá Galileu.

Síðan þá hafa fjölmargar eftirminnilegar myndir verið sýndar í bíóinu, þar á meðal Sound of Music, sem laðaði að sér 45 þúsund manns árið 1968, Grease, Godfather, Top Gun, Pelle sigurvegari, James Bond, Home Alone, Forrest Gump, Big Lebowski, Harry Potter og íslenskar perlur á borð við 79 af stöðinni, Með allt á hreinu, og Englar alheimsins.

Gamlar bíóskrár og dagbækur.
Gamlar bíóskrár og dagbækur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vissu í hvað stefndi

Núna hefur Sena sagt upp samningi sínum um rekstur kvikmyndahússins frá og með 1. júlí og eru þetta að vonum mikil tímamót í íslenskri menningarsögu.

„Þetta kom okkur ekki á óvart. Við vissum í hvað stefndi,” segir Þorvaldur Kolbeins, Þorri, rekstarstjóri Háskólabíós, spurður út í þessi tíðindi, sem margir Íslendingar sem sótt hafa bíóið í gegnum árin eiga erfitt með að kyngja. Hann segir bíóaðsókn hafa dregist saman, allt frá árinu 2007 en þegar kórónuveiran gekk yfir og í kjölfar hennar hafi þróunin orðið enn hraðari.

Filma frá árinu 1961 með kvikmyndinni The Big Fisherman. Þorri …
Filma frá árinu 1961 með kvikmyndinni The Big Fisherman. Þorri heldur á plakati með myndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynnisferð um króka og kima

Þorri og Margrét Gunnarsdóttir fjármálastjóri tóku á móti blaðamanni og ljósmyndara í hádeginu í dag og sýndu þeim gamla muni og minnisverða staði í þessari merku byggingu sem hönnuð var af Gunnlaugi Halldórssyni og Guðmundi Kr. Kristinssyni.

Í kynnisferðinni sýndu þau okkur stálhurð sem áður var á peningaskáp hússins sem geymdi alla innkomuna frá sýningum og veitingasölu, filmu í níðþungum kassa frá upphafsárinu 1961 og gömlu og upphaflegu margbólstruðu sætin í hátíðarsalnum frá Stálhúsgögnum við Skúlagötu. Sýningartjaldið sjálft er 171 fermetri að stærð og ákvað Þorri í gamni sínu að draga fyrir og frá, líkt og siður er á frumsýningum íslenskra kvikmynda.  

Tjaldið í aðalsalnum.
Tjaldið í aðalsalnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er enginn kvíðbogi í okkur,” segir Þorri, staddur inni í hátíðarsalnum, sem undanfarin ár hefur nánast eingöngu hýst nýjar, íslenskar kvikmyndir, fyrir utan hina ýmsu viðburði af öðrum toga. Hugmyndir eru nefnilega um að nýta húsnæðið áfram undir tónleika, ráðstefnur, fundi og kennslu. „Þetta er flottasti skemmtistaðurinn fyrir austan læk,” bætir rekstrarstjórinn við og brosir.

Gengið var inn í sýningarherbergi hátíðarsalarins, vitaskuld með góðu útsýni yfir allt saman. Þar inni mátti finna filmur á platta sem voru notaðar í gömlu sýningarvélinni og nýja, stafræna sýningarvél. Þorri segir tæknina einmitt hafa breyst gífurlega í bíóinu, bæði þegar kemur að því að sýna kvikmyndirnar og að borga fyrir miða og veitingar.  

Sýningarherbergi hátíðarsalarins.
Sýningarherbergi hátíðarsalarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðfaðirinn og Söngvaseiður í uppáhaldi

Inntur eftir uppáhaldsmynd sinni í Háskólabíói frá upphafi nefnir Þorri Godfather-myndirnar um Corleone-fjölskylduna frægu en minnist einnig á seríuna um galdrastrákinn Harry Potter. Margrét nefnir aftur á móti Sound of Music, Söngvaseið, sem hún kveðst hafa sótt um hverja einustu helgi, enda stutt að fara heiman frá úr Vesturbænum.

„Söguveggurinn
„Söguveggurinn". mbl.is/Kristinn Magnússon

„Söguveggur“ í kjallara hússins var sömuleiðis sýndur, þar sem kaffistofa og búningaherbergi Sinfóníunnar voru áður en er núna rými fyrir listamenn sem stíga á svið í aðalsalnum. Þar inni eru meðal annars „gömlu Kastrup-stólarnir“, eins og Margrét lýsti þeim. Í framhaldinu leiddi hún okkur inn í lítið herbergi þar sem poppkornið var útbúið, allt til loka síðasta áratugar. Túrinn endaði síðan í Sal 3 í viðbyggingunni sem opnaði árið 1990. Salurinn sagði kvaddi kvikmyndaheiminn árið 2020 eftir að halla tók verulega undan fæti með sýningar í kjölfar kórónuveirunnar og er hann núna hátæknivæddur kennslu- og ráðstefnusalur.

Hátíðarsalur Háskólabíós.
Hátíðarsalur Háskólabíós. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkomusalur unga fólksins 

Spurður segir Þorri að auðvitað muni hann sakna bíósýninganna í húsinu eftir öll þessi ár.

„Þetta var samkomusalur unga fólksins í gamla daga. Það var bara þannig. Það fóru allir í bíó til þess að hittast. En nú er þetta allt breytt. Það er orðin miklu, miklu meiri afþreying úti um allt og fólk hóar sér kannski saman og horfir á þetta heima í streyminu,” segir hann, núna sitjandi við skrifborðið sitt á skrifstofu sem hann deildir með Margréti. Hurðin af peningaskápnum gamla er einmitt beint á móti sætinu hans. 

Stálhurðin sem var á peningaskápnum.
Stálhurðin sem var á peningaskápnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Síðan tilkynnt var um endalok Háskólabíós hafa margir kvikmyndaunnendur horft til baka á samfélagsmiðlum og minnst gamalla og eftirminnilegra bíóferða. 

„Það er rosalega mörgum sem þykir vænt um þetta hús. Rosalega margir sem segja að það hafi verið gaman að koma í bíó í stóra salnum en það er ekki grundvöllur fyrir því, því miður,” segir Þorri.

Geymsla fyrir filmurnar.
Geymsla fyrir filmurnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markaðsmenn drógu fólk í bíó

Beðin um að nefna eftirminnilegasta viðburðinn tengdan kvikmyndum minnist Margrét tíma þegar markaðsmenn gripu til ýmissa ráða til að laða fólk í bíó. Þegar James Bond-mynd var frumsýnd var glæsibifreið til sýnis í rýminu við innganginn að hátíðarsalnum og fleira í þá áttina. „Það er búið að gera rosalega mikið til að fá fólk í hús,” greinir Margrét frá. Undir það tekur Þorri. „Þetta er ekki lengur gert í dag, en það var mikið lagt upp úr þessu.”

Gamlar filmur.
Gamlar filmur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það fer hver að verða síðastur að fara í bíó í Háskólabíói því lokasýningarnar verða föstudaginn 30. júní, eða eftir aðeins um þrjár vikur. Þá verður tjaldið dregið fyrir í hinsta sinn og punktur settur aftan við merkan kafla í íslenskri kvikmyndasögu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert