Stappar stáli í ríkisstjórnina sem beri sig illa

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól á Alþingi í kvöld.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samfylkingin hefur reynt að stappa stálinu í hæstvirta ríkisstjórn, sem ber sig illa, lætur raunar eins og hún stýri engu og geti þess vegna enga ábyrgð tekið á aðstæðum. Á meðan við höfum talað kjark og von í þjóðina.

Þegar sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum sem fara nú fram á Alþingi. Umræðurn­ar skipt­ast í tvær um­ferðir og hef­ur hver þing­flokk­ur átta mín­út­ur í fyrri um­ferð og fimm mín­út­ur í seinni um­ferð.

Kristrún er leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þinginu og flutti því fyrstu ræðu kvöldsins. 

Ekki krónu í útgjöld án tveggja króna á móti

Kristrún segir ákall eftir aðgerðum fyrir fólkið í landinu standa hvað mest upp úr að liðnu þingári. Hún ítrekar þá mikilvægi þess að vinna gegn verðbólgunni og að verja heimilisbókhaldið hjá fólki. 

„Nú fyrir þinglok höfum við stillt upp stuttum verkefnalista. Þrjú einföld verkefni sem hægt er að fara í strax: Vaxtabótaauki, leigubremsa og ívilnun til uppbyggingar, allt fjármagnað að fullu með því að loka ehf.-gatinu,“ sagði Kristrún.

Jafnframt ítrekar hún að Samfylkingin myndi stjórna landinu með öðrum hætti ef flokkurinn væri í ríkisstjórn.

Hún segir Samfylkinguna hafa það sem viðmið að gera ekki tillögu um eina krónu í útgjöld án þess að tvær krónur komi á móti til að vinna gegn verðbólgu.

Mikilvægt að verja velferðina

Að mati Kristrúnar geta stjórnvöld gert hlutina betur sem velferðarsamfélag. Þá listaði hún hvað felst í hugtakinu velferðarþjóðfélag og muninn á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd. Þá segir hún að á Norðurlöndunum geti launafólk sætt sig við minni prósentuhækkun þar sem hið opinbera hefur bolmagn til að standa vörð um húsnæðisöryggi fólks.

Við verjum stöðugleikann best með því að verja velferðina. Á þessu grundvallast stefna sósíaldemókrata sem hafa byggt upp farsælustu samfélög heims á Norðurlöndunum.

Hún segir þá traust almennings til stjórnmálaflokka hafa rofnað og segir að Samfylkingin muni leggja öll sín spil á borðið á þessu kjörtímabili varðandi hvað þau ætli sér að gera í ríkisstjórn á næsta tímabili að því gefnu að þau fái til þess umboð.

Segir ríkisstjórnina skapa falskar væntingar

Það er alvarlegt mál hvernig hæstvirt ríkisstjórn skapar aftur og aftur falskar væntingar hjá fólkinu í landinu með uppblásnum fyrirsögnum sem reynist svo engin innistæða fyrir.

Síðast í fyrradag var trommað upp með svokallaðan aðgerðapakka upp á 36 milljarða sem reyndist síðan ekkert nema endurtekið efni úr gamalli fjármálaáætlun; áætlun sem hafði fengið falleinkunn hvað varðar viðureignina við verðbólguna,“ sagði Kristrún.

Ísland á krossgötum

Hún segir þá Ísland vera á krossgötum hvað varðar ákvörðun um hvernig þjóðfélag Íslendingar vilja byggja upp. 

„Við þurfum að ákveða hvers konar þjóð við viljum vera. Velferðarþjóð? Stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi? Eða lausbundið samansafn einstaklinga. Þar sem keyrt er á þeirri mýtu að það sem helst skilgreini velsæld fólks sé skattprósentan sem er greidd, ekki gæði velferðarþjónustunnar í landinu.

Hún bætir þá við að sterk velferð sé lykillinn að stoltri og hagsælli þjóð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert