Börn komi heim í tölvuna í staðinn fyrir útileiki

María Guðnadóttir, íþróttakennari og forsprakki Lindaskólasprettsins.
María Guðnadóttir, íþróttakennari og forsprakki Lindaskólasprettsins.

María Guðnadóttir íþróttakennari lét nýverið af störfum í Lindaskóla eftir 23 farsæl ár. María hefur lagt ýmislegt af mörkum til íþróttastarfs í skólanum, en hún er forsprakki Lindaskólasprettsins, áheitahlaupi þar sem allt fjármagn rennur til góðgerðarmála fyrir börn á Íslandi.

Með átakinu eru tvær flugur slegnar í einu höggi, að hvetja nemendur Lindaskóla til að hreyfa sig meira en einnig leggja sitt af mörkum fyrir þá sem eiga um sárt að binda. Foreldrar heita 200 krónum fyrir hvern hring sem börn þeirra hlaupa. 

Áhersla lögð á langveik börn

„Mottóið er börn styrkja börn og ég hef lagt áherslu á langveik börn,“ segir María. „Mér finnst þetta bara svo fallegt.“

Í ár söfnuðust 250.000 krónur fyrir Umhyggju, styrktarfélag langveikra barna, en áður hefur átakið meðal annars styrkt ADHD-samtökin, Einhverfusamtökin og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.

María kveðst sjálf ákveða hvaða málstaður sé styrktur hverju sinni en segir að þessi fjögur verði oft fyrir valinu, meðal annars vegna nemenda með slíkar greiningar, sem geti notið góðs af styrktarfélögunum.

Hefur áhyggjur af hreyfingu barna

María kveðst almennt hafa áhyggjur af hreyfingu barna og segir mikilvægt að hvetja þau eins mikið og unnt er til að hreyfa sig, en hún stendur einnig á bak við átakið „Göngum í skólann.“ Þar keppa bekkirnir um gullskóinn og silfurskóinn, en gullskóinn hlýtur sá bekkur sem gengur mest í skólann á tveimur vikum.

„Það eru mörg börn sem eru svo metnaðarfull að vinna að þau hvetja svo hina, sem eru að svindla, til þess að hreyfa sig,“ segir María.

„Það vantar dálítið að heimilin vakni þegar börnin komi heim úr skólanum og um helgar og annað, að það séu útileikir. Þau koma bara heim í tölvuna.“ 

Nemendur Lindaskóla á spretti.
Nemendur Lindaskóla á spretti. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að styrkja börn á Íslandi

María kveðst ekki alveg horfin á brott úr skólanum, þrátt fyrir að hún láti nú af störfum sem kennari við skólann. „Þó ég sé hætt þá verð ég eins og grár köttur þarna,“ segir María, en hún sér áfram um Lindaskólasprettinn og Göngum í skólann. 

Hún kveðst einnig hafa áhuga á að kynna verkefnið í öðrum skólum. Hún veit til þess að Hörðuvallaskóli er með söfnun fyrir UNICEF, en hún vilji leggja áherslu á að styrkja smærri verkefni hér á landi.

„Mér finnst mikilvægt að styðja börn á Íslandi, markmiðið hjá mér er allavega að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert