Búrfellslundur blásinn af

Meðan fresturinn stendur verður farið með Búrfellslund eins og kosti …
Meðan fresturinn stendur verður farið með Búrfellslund eins og kosti í biðflokki, sem þýðir að stjórnvöld geti ekki veitt leyfi tengd orkuvinnslu vegna virkjunarkosta á svæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps fer fram á við Skipulagsstofnun að fresta ákvörðun um landnotkun fyrir Búrfellslund samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætlun í allt að tíu ár.

Ákvörðunin var tekin á sveitarstjórnarfundi í gær og var einhugur um hana meðal sveitarstjórnarfulltrúa. 

Landsvirkjun sótti um virkjanaleyfi til Orkustofnunar vegna Búrfellslundar í nóvember í fyrra. Sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir sveitarstjórn ekki endilega á móti áformum um vindorkuver þrátt fyrir að hafa ákveðið að fara fram á frestun landnotkunar. Forstjóri Landsvirkjunar telur óheppilegt að fresta virkjuninni.

Búrfellslund fer í biðflokk

Eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggur ráðherra fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, á Alþingi. Í fyrra lagði Guðlaugur Þór Þórðarson orkumálaráðherra slíka tillögu fram og var hún samþykkt 15. júní. Meðal þess sem tillagan fól í sér var að setja Búrfellslund í nýtingarflokk fyrir vindorkuvirkjanir.

Samkvæmt lögum um verndar- og nýtingaráætlun er sveitarstjórnum heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætlun í allt að tíu ár. Slíka ákvörðun ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar innan árs frá samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlunar. 

Eins og segir hefur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ákveðið að nýta sér þessa heimild og mun Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri tilkynna Skipulagsstofnun um þetta fyrir 15. júní. Meðan fresturinn stendur verður farið með Búrfellslund eins og kosti í biðflokki, sem þýðir að stjórnvöld geti ekki veitt leyfi tengd orkuvinnslu vegna virkjunarkosta á svæðinu.

Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps var einróma um að fara fram …
Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps var einróma um að fara fram á við Skipulagsstofnun að fresta ákvörðun um landnotkun fyrir Búrfellslund samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætlun í allt að tíu ár. Ljósmynd/Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Skattaumgjörðin ósanngjörn

Meðal ástæðna sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir því að fara fram á frestun er ósanngjarnt skattaumhverfi, en í gær var tilkynnt að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði skipað starfshóp sem falið væri að hefja skoðun á skattalegu umhverfi orkuvinnslu.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að markmiðið sé að skapa nýja skattalega umgjörð fyrir orkuvinnslu og kanna leiðir til að ávinningur vegna auðlindanýtingar, þar með talið vegna orkuframleiðslu, skili sér í ríkari mæli til nærsamfélaga og þeirra aðila sem fyrir áhrifum verða.

„Núverandi skattaumgjörð er mjög ósanngjörn og við vitum að ríkisstjórnin er búin að skipa starfshóp sem á að fjalla um endurskoðun skattaumhverfis á orkuvinnslu. Við teljum okkur einfaldlega verða að tryggja það að við séum ekki tilneydd til að innleiða þetta inn í skipulag verði niðurstaða skattabreytinganna sú að þetta verði ekki sanngjarnt,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is. 

„Það eru alltof mörg óvissuatriði. Það væri algjörlega óábyrgt af okkur að sitja bara og afgreiða þetta þegjandi og hljóðalaust,“ segir Haraldur enn fremur.

Haraldur segir skattaumgjörðina ósanngjarna.
Haraldur segir skattaumgjörðina ósanngjarna. Ljósmynd/Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Vilja vanda til verka

Þrátt fyrir að hafa tekið ákvörðun um að nýta sér þessa heimild í lögum sem frestar áformum Landsvirkjunar um vindorkuver á svæðinu segir Haraldur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ekki endilega á móti áformunum Landsvirkjunar.

„Við erum ekkert endilega að segja að við séum á móti Búrfellslundi. Við bara teljum okkur bara vanta svo miklar breytur til að geta metið það hvort þetta sé ákjósanlegt eða ekki. 

Þetta er ekki eini vindorkugarðurinn í sveitarfélaginu sem er í umfjöllun í rammaáætlun í dag. Þannig að það er mikilvægt fyrir okkur að vanda vel til verka og takmarka ekki möguleika sveitarfélagsins til atvinnuuppbyggingar á öðrum sviðum.“

Skilja sjónarmið sveitarfélaga

Í skriflegu svari til mbl.is segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að það sé óheppilegt að fresta virkjuninni.

„Búrfellslundur var í tíu ár til umfjöllunar í rammaáætlun og var færður í nýtingarflokk í fyrrasumar. Það er ákaflega óheppilegt ef það á að taka heilan áratug til viðbótar í skipulagsmál, einkum nú þegar mikið ákall er um frekari uppbyggingu grænnar orkuframleiðslu og orkan hérlendis er fullseld.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mikilvægt að nauðsynleg orkuuppbygging tefjist …
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir mikilvægt að nauðsynleg orkuuppbygging tefjist ekki. mbl.is/Hari

Hörður segir að Landsvirkjun hafi skilning á sjónarmiði sveitarfélaga um að nærumhverfi hljóti stærri hlutdeild í þeim tekjum sem orkuframleiðsla skapi.

„Landsvirkjun hefur skilning á því sjónarmiði sveitarfélaga að nærumhverfið hljóti stærri hlutdeild í þeim tekjum sem orkuframleiðslan skapar. Það samtal þarf þó að eiga sér stað á milli viðeigandi stjórnvalda, orkufyrirtækin ráða engu þar um. Við teljum mikilvægt að nauðsynleg orkuuppbygging tefjist ekki eða stöðvist vegna þessa.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka