Eiga „skýlausa kröfu“ um menntaskólavist

Þórdís Jóna segir börn eiga skýlausa kröfu um menntaskólavist.
Þórdís Jóna segir börn eiga skýlausa kröfu um menntaskólavist. Samsett mynd

„Það er skýlaus krafa að öll börn eiga að komast í menntaskóla,“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar, spurð um málefni Dagbjarts Sigurðar Ólafssonar, fatlaðs drengs sem fékk synjun um inngöngu í menntaskóla.

Hjá Menntamálastofnun fékk móðir hans, Gyða Sig­ríður Björns­dótt­ir, þau svör að stofnunin væri að bíða eftir svörum frá menntamálaráðuneytinu um það hvort fjármagn fengist til að sinna Dagbjarti. Því ríkir óvissa um stöðu hans hvað skólavist varðar næsta haust.  

Hann er hald­inn því sem heitir „fragile X syndrome“ eða heil­kenni brotgjarns X og stendur X þar fyrir X-litning erfðakeðjunnar. Þetta heilkenni hefur í för með sér alvarlega þroskahömlun og einhverfu. Dagbjartur þarf mikla aðstoð í daglegu lífi.

Ekki nægilega gott yfirlit

„Börnum sem velja starfsbrautina hefur fjölgað og það hefur ekki náðst að hafa nægilega gott yfirlit yfir þessi mál. Það er hins vegar full alvara um það að gera betur í þessum málum,“ segir Þórdís og bætir við að stefnumótandi vinna sé í gangi við að setja þessi mál í betri farveg.

Hún segist hafa fullan skilning á því að foreldrar láti í sér heyra þegar þau fái þau skilaboð að óvissa sé um skólavist.

„Það er auðvitað algjörlega óásættanlegt að bíða þurfi eftir svörum þegar þetta er réttur barna og við þurfum að vanda okkur betur í að virða skýlausan rétt barna.“

Krafan verði virt 

Hún segir að börn í þessari stöðu fái svör síðar í sumar. Spurð beint út hvort drengurinn fái skólavist segir hún ekki sjá annað í stöðunni.

„Ég get ekki séð hvernig það verður ekki virt. En það sem er óásættanlegt í stöðunni er að þurfa að bíða eftir því að fá svör," segir Þórdís.

Að sögn hennar liggur tímarammi svars hjá ráðuneytinu og Menntamálastofnun sjái einungis um innritun í skólana. Við það er tekið mið af því plássi sem er til staðar og í tilfelli drengsins hafi ekkert pláss verið til staðar þegar til innritunar kom. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert