Ekki var heimilt að vísa manni og barni úr landi

Barnungri stúlku og frænda hennar var meinuð innkoma til landsins.
Barnungri stúlku og frænda hennar var meinuð innkoma til landsins. Eggert Jóhannesson

Ekki var heimilt að meina fimmtán ára albanskri stúlku og 25 ára frænda hennar um að koma inn í landið þegar þau lentu á Keflavíkurflugvelli í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur maðurinn heimild til að dvelja á Íslandi en stúlkan hefur ferðaheimild til landsins í allt að 90 daga.

Þeim var haldið í 35 klukkustundir eftir komuna til landsins áður en þau héldu af landi brott.

Lögmaður beggja, Claudia A. Wilson, hefur eftir manninum að þeim hafi verið tjáð af lögreglu að hann þyrfti að koma sér af landinu á eigin kostnað innan klukkustundar en eiga að öðrum kosti yfir höfði sér endurkomubann til tveggja ára. Í framhaldi af því yfirgáfu þau landið.  

Enginn rökstuðningur 

Þegar stúlkan kom til landsins sagðist hún ætla að verja tíma með ættingjum í viku á Íslandi. Að sögn Claudiu sagði lögreglan að tilgangur hennar með því að koma til landsins væri óljós og af þeim sökum var henni meinaður aðgangur. 

„Það vantaði allan rökstuðning frá lögreglustjóra fyrir því að hann teldi tilgang heimsóknar óljósan í máli stúlkunnar. Ég hef ekki enn fengið hann þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Sennilega hefur lögregla talið að frændi hennar hefði ekki heimild til að dvelja á Íslandi og því hafi tilgangurinn verið óljós. Nú hefur málið hins vegar verið upplýst sem sýnir að þetta var ekki rétt,“ segir Claudia.

Claudia Wilson.
Claudia Wilson. Mynd/Skjáskot af vef RÚV

Var grunlaus um synjun

Maðurinn hefur búið á Íslandi í sex ár og rekur hér fyrirtæki. Að sögn Claudiu er hann í skilnaðarferli og við það þarf fólk nýjan dvalarleyfisgrundvöll. Maðurinn fékk synjun á áframhaldandi dvalarleyfi þann 31. maí en ákvörðunin var ekki birt honum fyrr en í dag. Hann var því grunlaus um það þegar hann kom til landsins í gær.

Hvað sem því líður er skýrt í lögum að hægt er að kæra úrskurð eða leggja fram umsókn á nýjum grundvelli. Hefur hann 15 daga til að gera það eftir að ákvörðunin er birt honum.   

Þá er hann með gilt dvalarleyfisskírteini hér á landi fram í ágúst eða þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í máli hans.

Lögregla hafi ekki fylgt lögum 

„Framkvæmdin er þannig að Útlendingastofnun beinir því til hans að leggja inn nýja umsókn. Hann gerði það og á meðan hún er í vinnslu á hann að fá að búa á Íslandi. Þetta er lögum samkvæmt og framkvæmdin hefur líka verið með þessum hætti,“ segir Claudia.

„Ákvörðunin um frávísun var því röng og umbjóðandi minn hefur heimild til dvalar á Íslandi. Það hefur nú verið staðfest. Ef lögregla hefði fylgt lögunum þá hefði henni mátt vera þetta ljóst,“ segir Claudia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert