Enginn afsláttur af flugferðum með skerta þjónustu

Icelandair hefur leigt fluvélar frá Fly2Sky, GetJet og Neos.
Icelandair hefur leigt fluvélar frá Fly2Sky, GetJet og Neos. Samsett mynd

Icelandair hefur tekið nokkrar flugvélar á leigu frá þremur flugvélaleigum fyrir júnímánuð. Flugvélarnar eru ekki sambærilegar öðrum flugvélum í flota Icelandair og verður þjónusta í flugferðunum skert.

Þetta staðfestir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sem áréttar að breytingarnar eigi við um mjög lítinn hluta flugáætlunar flugfélagsins.

Spurður hvort þeir farþegar sem ferðast með leiguvélunum fái einhvern afslátt af fargjaldi fyrir slakari þjónustu svarar Guðni því neitandi. Hann segir sama fargjald gilda um flugferðir með vélum Icelandair og með leiguvélunum. 

Hann bendir þó á að þeir farþegar sem munu ferðast með flugvél með skerta þjónustu fái tíu þúsund vildarpunkta inn á vildarreikning sinn að flugi loknu.

Minna fótapláss

Guðni segir að ekki sé hægt að tryggja sama þjónustustig um borð í flugvélunum sem voru leigðar með svo stuttum fyrirvara. Hann telur að viðskiptavinir sem hafa áður flogið með Icelandair muni taka eftir því.

„Þetta er mismunandi eftir vélum. Það getur verið minna fótapláss, það er ekki Saga class í vélunum og ef fólk hefur borgað fyrir aukið fótapláss þá getum við ekki veitt þá þjónustu því uppsetningin á flugvélunum er önnur en í okkar vélum.

Veitingaþjónustan er einnig með öðru sniði. Það eru léttar veitingar sem farþegar fá endurgjaldslaust en allir farþegar fá það sama og geta ekki valið af matseðli,“ segir hann.

Hann tekur þó fram að þeir sem hafa keypt sérstaka aukaþjónustu, eins og aukið fótapláss, fái hana endurgreidda. 

Tjón varð á tveimur flugvélum á flugbrautinni

Icelandair leigir flugvélar frá flugvélaleigunum Fly2Sky, GetJet og Neos en þær verða notaðar í flugi til nokkurra áfangastaða í Evrópu í júní.

Guðni segir það hafa verið nauðsynlegt að grípa til þessa úrræðis vegna þess að tjón varð á tveimur flugvélum flugfélagsins í maí þegar flugvallartæki rákust utan í vélarnar á Keflavíkurflugvelli. Jafnframt varð töf á viðhaldi nokkurra flugvéla sem hefðu annars átt að vera tilbúnar til notkunar. 

Betra en að aflýsa flugferðum

Hann segir að þetta hafi verið skárri kosturinn í stöðunni í stað þess að neyðast til að aflýsa nokkrum flugferðum. Hann vonast til þess að farþegar sýni því skilning.

Hann tekur þá fram að Icelandair leggi áherslu á gott upplýsingaflæði og bætir við að flugfélagið muni senda út tilkynningar um þá þjónustu sem stendur til boða til allra farþega sem eiga bókað flug með flugvél í skammtímaleigu.

mbl.is