Mengunarinnar gæti orðið vart á Íslandi

Loftgæði í New York hafa verið með minnsta móti.
Loftgæði í New York hafa verið með minnsta móti. AFP

Mengun frá skógareldum í Kanada hefur valdið afleitum loftgæðum í New York en hún hefur nú að öllum líkindum einnig ratað til Íslands. Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Óla Þór Árnason, veðurfræðing á Veðurstofu Íslands.

Óli segir öskuagnir frá eldunum líklega hafa verið í loftinu hér í kringum landið síðastliðna daga, en ekkert hafa mælst vegna rigningarinnar sem hefur þá skolað öskuna út.

„En við gætum alveg séð eitthvað mistur þegar léttir til um og eftir miðjan dag á morgun og ekki síst á laugardag og sunnudag. Það þarf ekki að vera, en það er alls ekki útilokað,“ segir hann.

Öskuagnirnar komnar til Noregs

Greinir hann frá því að einhverjar öskuagnir hafi fundist á vesturströnd Noregs og því sé ekki ólíklegt að þær sé einnig að finna í háloftunum fyrir ofan Ísland. Við verðum einfaldlega ekki vör við þær þökk sé rigningunni, í það minnsta á suðvesturhorninu.

Spurður hvort þessar upplýsingar gefi tilefni til að hafa áhyggjur segir hann í raun ekki ástæðu til þess. Mögulega myndist mistur með þeim afleiðingum að síður sjáist til sólar en ástandið verði ekkert í líkingu við það sem New York-búar hafa verið að sjá. Hann segist ekki hafa miklar áhyggjur af skertum loftgæðum.

„Þetta þarf ekki að hafa áhrif en getur það og mögulega gætu þeir allra viðkvæmustu fundið fyrir einhverju, en mér finnst það samt sem áður frekar ólíklegt,“ segir Óli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert